Skreið á maganum til að bjarga Gosa

Davíð Smári, Gosi og hundurinn Kári í bústaðnum síðasta sumar.
Davíð Smári, Gosi og hundurinn Kári í bústaðnum síðasta sumar.

Fyr­ir katta­eig­end­ur sem velta fyr­ir sér hæfni heim­iliskatta til að bjarga sér ef þeir týn­ast, er ný­leg saga af Gosa frá Njarðvík ágætt inn­legg í þá umræðu. Gosi týnd­ist í þrjár vik­ur í níst­ings­frosti í Gríms­nes­inu en hafði bet­ur í bar­átt­unni við dauðann þar til hann kom í leit­irn­ar. 

Kött­ur­inn Gosi fædd­ist 11.11.11 og er því á tólfta ald­ursári. Hef­ur hann fylgt eig­end­un­um Val­geiri og Söru Berg­mann nán­ast frá því að þau hófu sam­búð. Gosi er for­vit­inn að eðlis­fari og eig­end­urn­ir hafa gripið til þess ráðs að setja GPS-ól á kött­inn og geta þau því í krafti tækn­inn­ar fylgst með þegar kött­ur­inn er á flæk­ingi.

Gosi hef­ur átt það til að kynna sér Reykja­nes­bæ í skjóli næt­ur og er ekki óvan­ur langri heilsu­bót­ar­göngu sem eig­end­urn­ir geta fylgst með, með hjálp GPS. 

Raf­hlaðan tæmd­ist

Þegar Gosi týnd­ist á dög­un­um var hann hins veg­ar á slóðum sem hann þekk­ir ekki eins vel en fjöl­skyld­an var í sum­ar­bú­stað í Gríms­nes­inu. Gosi hætti sér lengra frá bú­staðnum en hann er van­ur og virðist hafa tapað átt­um. Ekki var hægt að nýta GPS-tækn­ina við leit­ina því raf­hlaðan tæmd­ist í búnaðinum. 

Val­geir tjáði mbl.is að Gosi hefði týnst þegar vetr­ar­frí var í skól­um. Týnd­ist kött­ur­inn á laug­ar­degi og leituðu þau alla helg­ina. Eft­ir það þurfti hann að fara til vinnu og son­ur þeirra í skól­ann. Sara varð eft­ir í bú­staðnum og ákveðið var að manna bú­staðinn áfram ef kött­ur­inn skyldi skila sér. Var bú­staður­inn sem er í eigu for­eldra Söru því mannaður í þrjár vik­ur til ör­ygg­is.

Á sama tíma stóð yfir mik­il leit að kett­in­um og Val­geir er sum­ar­húsa­eig­end­um á svæðinu afar þakk­lát­ur fyr­ir mikla hjálp. 

„Sam­fé­lagið þarna í Önd­verðanes­inu er ótrú­lega fal­legt. Við höfðum aug­lýst eft­ir kett­in­um á svæðinu og ógrynni af fólki deildi aug­lýs­ing­unni og sýndi stuðning. Fólk í Önd­verðanes­inu sem ég hef aldrei hitt, gekk um allt til að leita að kett­in­um,“ seg­ir Val­geir í sam­tali við mbl.is og nefn­ir einnig að þau hafi fengið mikla hjálp frá fólki hjá dýra­vernd­un­ar­fé­lag­inu Villikött­um. 

„Guðný Tóm­as­dótt­ir, svína­bóndi og sjálf­boðaliði hjá Villikött­um, hjálpaði okk­ur gríðarlega mikið. Hún var vak­in og sof­in yfir þessu. Setti upp felli­búr, mynda­vél­ar með hrey­fiskynj­ara og hvaðeina.“

Taldi kött­inn af

Sum­ar­húsa­eig­end­ur könnuðu hvort þau kæmu auga á kött­inn í eft­ir­lits­mynda­vél­um. Þegar á leið var Val­geir hins veg­ar far­inn að ef­ast um að kött­ur­inn væri á lífi í þeim fimb­ul­kulda sem gekk yfir landið. 

„Ef til vill var það Guðnýju að þakka að við gáf­umst ekki upp því ég var nú far­inn að telja kött­inn af. Ein­ar Svein­björns­son veður­fræðing­ur sagði í fjöl­miðlum um dag­inn að kuldakastið væri af­brigðilegt og það versta í sjötuíu og tvö ár. Inn til lands­ins er mun meira frost en á höfuðborg­ar­svæðinu og á næt­urna var frostið iðulega 10 til 15 gráður. Kött­ur­inn var mat­ar­laus og skjól­laus í þrjár vik­ur í þessu frosti,“ seg­ir Val­geir en þá dró til tíðinda. 

„Sum­ar­húsa­eig­end­ur sem hjálpuðu okk­ur, Aðal­steinn og Birna, til­kynntu mér í síðustu viku að þau hefðu séð kött­inn í ör­ygg­is­mynda­vél. Ég gerði mér ferð til þeirra síðdeg­is á laug­ar­dag­inn en okk­ur grunaði að kött­ur­inn gæti hafa leitað skjóls und­ir bú­staðnum hjá þeim. Á mynd­um í ör­ygg­is­mynda­vél­inni virt­ist kött­ur­inn að niður­lot­um kom­inn og stóð vart und­ir sjálf­um sér þegar hann reyndi að labba upp brekku. Og síðan þá höfðu liðið tveir eða þrír dag­ar.

Með það fór ég frá þeim og gafst þá upp enda var ég viss um að kött­ur­inn myndi draga sig í hlé í þessu ástandi með þeim af­leiðing­um að við mynd­um aldrei finna hann. Ég var að velta þessu fyr­ir mér á leiðinni heim að bú­staðnum um kvöld­mat­ar­leytið á laug­ar­dag­inn en þá birt­ist kött­ur­inn allt í einu við veg­inn þegar ég var á akstri.“

Gaf sig ekki svo auðveld­lega

Kálið er ekki sopið þótt í aus­una sé komið og við tók mikið þol­in­mæðis­verk hjá Val­geiri því Gosi var orðinn tor­trygg­inn mjög eft­ir hrak­far­irn­ar í nátt­úr­unni. 

„Mér er sagt af fólki hjá Villikött­um að heim­iliskett­ir koma jafn­vel ekki til eig­enda sinna ef þeir eru í þessu ástandi. Þá eru þeir komn­ir í ein­hvern ham þar sem þeir reyna bara að lifa af. Ég reyndi að lokka hann til mín með alls kyns góðgæti sem Gosa þykir best en hann tók ekki í mál að koma til mín. Þarna sat ég við mal­ar­veg­inn í kort­er að spjalla við kött­inn, henti til hans skinku­bit­um og reyndi að vinna traust hans.

Hann lét hins veg­ar ekki freist­ast og þá skreið ég eins hægt og ég gat á mag­an­um til hans. Ég skreið í tíu mín­út­ur til hans og tókst þá að grípa hann. Ég fann þá strax að hann var bara gang­andi beina­grind enda var hann kom­inn niður í þrjú kíló en hafði verið rúm fimm í síðustu lækn­is­skoðun.“

Valgeir kampakátur eftir að hafa náð Gosa inn í bíl …
Val­geir kampa­kát­ur eft­ir að hafa náð Gosa inn í bíl til sín eft­ir mikla leit vik­um sam­an.

Hlýja frá fólk­inu í hverf­inu

Son­ur Val­geirs og Söru, Davíð Smári, er níu ára gam­all og af­skap­lega hænd­ur að kett­in­um. Hænd­ari að kett­in­um en hund­un­um tveim­ur sem einnig eru á heim­il­inu. Kenn­ar­ar Davíðs höfðu til að mynda haft orð ég því við for­eldr­ana að dreng­ur­inn hefði verið dauf­ur í dálk­inn dag­ana á und­an. Þar af leiðandi fylgdi því mik­ill létt­ir fyr­ir Val­geir að geta komið með kött­inn heim á lífi. 

„Það var góð stund þegar ég gat sett kött­inn í fangið á Davíð,“ seg­ir Val­geir sem ít­rek­ar hve hjálp­samt fólkið á svæðinu hafi verið. 

„Mér finnst svo áhuga­vert hvað við fund­um fyr­ir mik­illi hlýju frá fólk­inu í sum­ar­bú­staðahverf­inu,“ seg­ir hann og nefn­ir einnig Ágúst og Ja­son Krist­in í Önd­verðanesi og Arn­dísi hjá Villikött­um. 

Á þessari mynd má sjá á ólinni hversu mikið kötturinn …
Á þess­ari mynd má sjá á ól­inni hversu mikið kött­ur­inn hafði hor­ast.

Dýra­lækn­ar höfðu áhyggj­ur

Af Gosa er það að frétta að hann hef­ur fengið góða umönn­un frá dýra­lækn­um eft­ir helg­ina. Lík­lega var hann ekki end­an­lega úr lífs­hættu fyrr en í gær að sögn Val­geirs.

Eig­end­urn­ir fóru ró­lega í að gefa kett­in­um að borða þar til hann komst til dýra­lækn­is svo viðbrigðin yrðu ekki of mik­il. Dýra­lækn­arn­ir höfðu áhyggj­ur af því að ein­hver líf­færi kynnu að vera um það bil að gefa sig en nú virðist ljóst að svo sé ekki. 

Eig­end­urn­ir eru með birgðir af fæðubót­ar­efn­um fyr­ir dýr, kalí­um fyr­ir hjartað og eitt og annað. Gosi er því lík­leg­ur til að bragg­ast á næst­unni og verður ef­laust far­inn að kanna  Njarðvík og ná­grenni gaum­gæfi­lega áður en langt um líður. Með mikla lífs­reynslu í fartesk­inu.

mbl.is