Tíminn útrunninn hjá TikTok?

Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, við upphaf fundarins í dag.
Shou Zi Chew, forstjóri TikTok, við upphaf fundarins í dag. AFP

Shou Zi Chew, for­stjóri TikT­ok, seg­ir að hluti af þeim gögn­um sem fyr­ir­tækið safni í Banda­ríkj­un­um sé enn aðgengi­legt starfs­fólki þess í Kína. Þetta sagði Chew sem sit­ur fyr­ir svör­um banda­rískr­ar þing­nefnd­ar í dag. 

Nefnd­in rann­sak­ar nú hvort fyr­ir­tækið og for­ritið vin­sæla teng­ist með bein­um hætti stjórn­völd­um í Kína. 

„Það er enn eitt­hvað af gögn­um í dag sem við þurf­um að eyða,“ sagði Chew við þing­menn orku- og viðskipta­nefnd­ar full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings. Hann sagði enn frem­ur að fyr­ir­tækið myndi fjar­lægja öll banda­rísk gögn þannig að kín­versk stjórn­völd kom­ist ekki yfir þau. 

Hart var sótt að Chew á fund­in­um í dag sem þarf að svara fyr­ir áfram­hald­andi til­vist TikT­ok í Banda­ríkj­un­um. TikT­ok er gríðarlega vin­sælt snjallsíma­for­rit þar sem hægt er að búa til að deila mynd­skeiðum. 

AFP

Full­ir efa­semda

Banda­rísk­ir þing­menn eru full­ir efa­semda um til­gang og ágæti for­rits­ins sem safn­ar gríðarlega mikl­um upp­lýs­ing­um úr farsím­um. En því hef­ur verið haldið fram að bein tengsl séu á milli fyr­ir­tæk­is­ins og kín­verskra yf­ir­valda, og því haldið fram að for­ritið sé notað til að njósna um banda­ríska rík­is­borg­ara eða notað í ein­hvers­kon­ar áróðri.

Chew, sem er fer­tug­ur, þarf að sitja fyr­ir svör­um í nokkr­ar klukku­stund­ir. TikT­ok er í eigu kín­verska fyr­ir­tæk­is­ins ByteD­ance. 

Fram hef­ur komið að stjórn­völd m.a. í Banda­ríkj­un­um, Kan­ada og í Bretlandi hafi krafið op­in­bera starfs­menn um að eyða for­rit­inu úr sím­um sín­um. 

Greint var frá því í dag að breska þingið hafi bæst í hóp þeirra sem leggi nú blátt bann við notk­un á TikT­ok. 

Banda­rísk stjórn­völd hafa sett fyr­ir­tæk­inu afar­kosti. Ef fyr­ir­tækið seg­ir ekki skilið við kín­versku eig­end­urna verði það bannað. 

Hart var sótt að Shou Zi Chew, forstjóra TikTok, á …
Hart var sótt að Shou Zi Chew, for­stjóra TikT­ok, á fund­in­um. AFP

150 millj­ón­ir not­enda í Banda­ríkj­un­um

Chew sagði í upp­hafi máls síns að ByteD­ance væri hvorki í eigu né stjórnað af kín­versk­um stjórn­völd­um. Um væri að ræða fyr­ir­tæki í einka­eigu. Hann sagði að 60% væri í eigu alþjóðlegra fag­fjár­festa, 20% í eigu stofn­and­ans og 20% í eigu starfs­manna víða um heim. 

Chew sagði að það væri nauðsyn­legt að regl­ur varðandi öll tæknifyr­ir­tæki yrðu að vera gegn­sæj­ar. Kjarni vanda­máls­ins sner­ist ekki um eign­ar­haldið. 

Verði samþykkt að banna fyr­ir­tækið þá yrði það for­dæma­laus aðgerð gegn fjöl­miðlafyr­ir­tæki af hálfu banda­rískra stjórn­valda. Þar með yrði klippt á 150 millj­ón­ir not­enda. TikT­ok nýt­ur sér­stak­lega mik­illa vin­sælda meðal ungs fólks vestra og er næst á eft­ir Net­flix sem sá miðill sem flest­ir nota til að horfa á efni sér til skemmt­un­ar á net­inu. 

Þrátt fyr­ir að lofa öllu fögru í upp­hafi fund­ar­ins í dag, þá er út­lit fyr­ir að banda­rísk yf­ir­völd séu þegar búin að taka ákvörðun um næstu skref. Nokk­ur laga­frum­vörp eru nú til meðferðar, þar á meðal eitt sem nýt­ur stuðnings Hvíta húss­ins í Washingt­on, sem myndi leiða til þess að for­ritið verði al­farið bannað. 

Cathy McMorris Rodgers er formaður nefndarinnar.
Cat­hy McMorr­is Rod­gers er formaður nefnd­ar­inn­ar. AFP

Nei takk

Cat­hy McMorr­is Rod­gers, formaður banda­rísku þing­nefnd­ar­inn­ar, seg­ir að TikT­ok hafi ít­rekað kosið að fara þá leið að ná meiri stjórn, ýta und­ir meira eft­ir­lit og hafa áhrif á not­end­ur. Hún er þeirr­ar skoðunar að banna eigi TikT­ok í Banda­ríkj­un­um. 

Hún sagði enn frem­ur, að þær 150 millj­ón­ir Banda­ríkja­manna sem notaði TikT­ok séu banda­rísk­ir rík­is­borg­ar­ar sem komm­ún­ista­stjórn­in í Kína geti safnað viðkvæm­um upp­lýs­ing­um um og stjórnað því sem fólk sjái, heyri og trúi. 

mbl.is