62 ára og með fimm í takinu

Sjónvarpskonan Carol Vorderman talaði á dögunum opinskátt um ástarlíf sitt.
Sjónvarpskonan Carol Vorderman talaði á dögunum opinskátt um ástarlíf sitt. AFP

Sjónvarpskonan Carol Vorderman talaði á dögunum opinskátt um ástarlíf sitt og þá staðreynd að hún sé með fimm „sérstaka vini“ í takinu. 

Í viðtali við tímaritið You segir Vorderman samböndin ganga mjög vel og að þau virki vegna þess að hún vilji ekki vera ástfangin og sé ekki afbrýðisöm manneskja. Hún segir elskendur sína alla vera einhleypa, þar með talin hún sjálf, og að henni sé sama þó einhver þeirra myndi finna ástina annars staðar, að því er fram kemur á vef Daily Mail

„Ó, já, já, „sérstöku vinir mínir“ – ég er að halda áfram með það kerfi og það virkar mjög vel,“ sagði hún. „Þeir eru fimm. Einn hefur verið vinur minn í 11 ár og annar í 7 ár. Börnin mín þekkja þá flesta.“

Segist njóta frelsisins

Vorderman segist njóta sjálfstæðisins og frelsisins sem þetta „kerfi“ hennar býður upp á og segir að það sé ekkert vandamál ef vinir hennar vilja meiri nánd en hún svo lengi sem allir séu heiðarlegir og hafi það gott.

Vorderman hefur verið einhleyp frá árinu 2007 þegar hún skildi við blaðamanninn Des Kelly. Fyrir það var hún tvisvar gift, annars vegar Christopher Mather frá árinu 1985 til 1986 og hins vegar Patrick King frá árinu 1990 til 2000, en hún og King eignuðust tvö börn saman.

mbl.is