Veiðar loðnuskipanna gengu einstaklega vel í mars og tókst að landa tugþúsundum tonna á tiltölulega skömmum tíma vegna einstakra veðurskilyrða. Misstu skipin ekki dag úr veiðum allan mánuðinn vegna veðurs eða sjólags, að því er fram kemur í samantekt um loðnuvertíðina í síðasta blaði 200 mílna.
Vertíðin er talin geta skilað vel yfir 40 milljörðum í útflutningstekjur.
Vilhelm Þorsteinsson EA, uppsjávarskip Samherja, er aflamesta skip vertíðarinnar og bar það til hafnar 21.421 tonn. Skipið náði einnig að flytja stærsta loðnufarm vertíðarinnar að bryggju þegar Vilhelm Þorsteinsson kom til Seyðisfjarðar með 3.331 tonn 17. mars.
Mestum loðnuafla var landað í Vestmannaeyjum, alls 81.530 tonnum, sem er fjórðungur alls loðnuaflans. Í Vestmannaeyjum er jafnframt að finna aflamestu loðnuútgerðina, Ísfélag Vestmannaeyja, auk þess má þar finna Vinnslustöðina, en útgerðin landaði 12% aflans.