Tónlistarkonan Gwen Stefani hefur fengið misjöfn viðbrögð við fötunum sem hún klæddist á rauða dreglinum á CMT-tónlistarverðlaununum um helgina. Loðfílastígvélin sem hún klæddist voru ekki allra.
Stefani var í skyrtu með bindi og í síðum jakkafatajakka. Að neðan var hún í afar stuttu pallíettupilsi, netasokkabuxum og loðskóm. Fötin fann hún ekki heima hjá ömmu sinni heldur er hún með stílista sem völdu fyrir hana föt frá hátískumerkinu Valentino.
Einhverjir aðdáendur hennar kunna að meta djarft fataval hennar en aðrir létu hana heyra það á Instagram. Stjarnan birti myndskeið af sér af verðlaunahátíðinni og má þar sjá athugasemdir á borð við: „Í hverju ert þú?“
Fáir mættu í hefðbundnum svörtum síðkjólum á rauða dregilinn og voru stjörnurnar duglegar að taka áhættu í fatavali. Hinar stjörnurnar létu vissulega kuldaskóna eiga sig en fatnaðurinn var þó fjölbreyttur eins og sjá má hér að neðan.