Vinsældir hins sólríka áfangastaðar Algarve í suðurhluta Portúgal hafa aukist gríðarlega síðustu ár. Þangað flykkjast Hollywood-stjörnurnar hver á eftir annarri, enda er svæðið oft kallað „Kalifornía Evrópu“.
Að meðaltali fær áfangastaðurinn 300 sólskinsdaga á ári. Þar finnur þú töfrandi strendur, spennandi vín- og matarsenu, unga og framsækna listamenn og fallegan arkitektúr.
Á Algarve eru fleiri Michelin-stjörnu-veitingastaðir en gengur og gerist í Portúgal sem minnir óneitanlega á Kaliforníu. Áfangastaðurinn er því tilvalinn fyrir matgæðinga. Þá býður svæðið upp á dásamlega blöndu af ströndum, sveit og borgarlífi á svipaðan hátt og Kalifornía.
Arkitektúrsunnendur ættu að hafa gaman af því að heimsækja Vila Real de Santo António á landamærum Portúgals og Spánar. Þar má finna nýklassískar byggingar í bland við svokallaðar Pombaline-blokkir í anda Lissabon.
Í höfuðborginni Faro má svo sjá módernískar byggingar í anda Palm Springs og Hollywood sem eru sérstaklega hannaðar fyrir suðrænt loftslag. Í umfjöllun Travel + leisure um áfangastaðinn kemur fram að Kaliforníubúar flykkist nú til Algarve í leit af afslöppuðum lífsstíl og hagstæðara verði.
Það er því óhætt að segja að Algarve sé hinn fullkomni áfangastaður fyrir þá sem dreymir um að heimsækja Kaliforníu og þrá að komast í sólina.