Hlutfall launa og launatengdra greiðslna er um 60% af tekjum Reykjavíkurborgar en á sama tíma er hlutfallið ríflega 58,7% í Árborg. Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu KPMG um stöðu sveitarfélaga og vísað var til í umræðu um stöðu fjármála í Reykjavík á borgarstjórnarfundi í gær.
Eins og fram hefur komið voru Árborg og Reykjavík tvö þeirra sveitarfélaga sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga segir ekki uppfylla öll lágmarksviðmið fyrir A-hluta rekstrar sem er sá hluti er snýr að daglegum rekstri sveitarfélaganna. Nefndin sendi nýverið bréf með athugasemdum til 21 sveitarfélags vegna fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, sagði á borgarstjórnarfundi að hún teldi merkilegt að bera viðbrögð sveitastjórnar Árborgar saman við viðbrögð Dags B. Eggertssonar sem sagði í samtali við mbl.is að um rútínubréf væri að ræða.
„Í Árborg sýnir sveitastjórnin ábyrgð með heiðarlegum viðbrögðum, boðar til íbúafundar og kynnir aðgerðir. Í Reykjavík stígur borgarstjóri fram og segir allt í lukkunnar velstandi, nema hann sjái langsótt tækifæri til að skella skuldinni á ríkið. Engin viðleitni til að horfast í augu við vandann og bregðast við,“ segir Hildur.
„Í kynningu sveitastjórnar Árborgar á fjölmennum íbúafundi voru ástæður þess raktar, að sveitarfélagið þyrfti nú að ráðast í aðgerðir. Þar var meðal annars nefnt að íbúum Árborgar hafi á undanliðnum árum fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun, og að hlutfall af heildartekjum sveitarfélagsins sem renna til greiðslu launa sé allt of hátt. Hvoru tveggja aðstæður sem eru jafnframt uppi í Reykjavík. Munurinn er sá að í Árborg er þetta álitið vandamál, en í Reykjavík er meirihlutinn með bundið fyrir augun“, sagði Hildur jafnframt í samantekt af fundinum frá Sjálfstæðisflokki.
Vísar Hildur þar til þess að fyrir um viku var tilkynnt um það að 57 starfsmönnum hafi verið sagt upp hjá Árborg.
Þá vísuðu Sjálfstæðismenn til kynningar sem KPMG vann fyrir sveitastjórn Árborgar þar sem kom fram að yfir 5 ára tímabil (2016-2021) hafi íbúum Árborgar fjölgað um 27,4% en starfsmönnum um 40%. Til samanburðar má nefna að yfir 5 ára tímabil (2017-2022) þá fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 10% en starfsmönnum um 25% að því er fram kemur í .
Í kynningu KPMG kemur jafnframt fram að um 58.7% af heildartekjum Árborgar hafi farið til greiðslu launa og launatengdra gjalda árið 2022. „Til samanburðar runnu um 60% af heildartekjum Reykjavíkur til greiðslu launa og launatengdra gjalda árið 2022. Sú staða sem vekur áhyggjur í Árborg er í raun verri hjá Reykjavíkurborg,“ segir Hildur.