Bráðnun jökla „út úr kortinu“

Petteri Taalas, forstöðumaður WMO, kynnir ársskýrsluna á blaðamannafundi í dag.
Petteri Taalas, forstöðumaður WMO, kynnir ársskýrsluna á blaðamannafundi í dag. AFP/Fabrice Coffrini

Síðastliðin átta ár hafa verið þau hlýj­ustu á jörðinni frá upp­hafi mæl­inga og þétt­leiki svo­kallaðra gróður­húsaloft­teg­unda í and­rúms­loft­inu á sama tíma aldrei meiri auk þess sem bráðnun jökla heims­ins var meiri í fyrra en nokkru sinni. Þetta kem­ur fram í ár­legri lofts­slags­skýrslu Alþjóðaveður­fræðistofn­un­ar­inn­ar WMO sem birt var í dag.

Skrif­ar stofn­un að bráðnun­in hafi hrein­lega verið út úr kort­inu, eða „off the charts“ eins og það er orðað í skýrsl­unni og hækk­un sjáv­ar­borðs í heim­in­um, til sam­ræm­is við þetta, aldrei meiri síðasta ára­tug­inn eða 4,62 milli­metr­ar á ári að meðaltali árin 2013 til 2022 en það er tvö­föld meðal­hækk­un á við ára­bilið 1993 til 2002. Þá hafa heims­höf­in aldrei verið hlýrri sam­kvæmt skýrsl­unni enda draga þau til sín um 90 pró­sent þess hita sem til verður fyr­ir áhrif gróður­húsaloft­teg­und­anna.

Þynn­ing jökla 30 metr­ar frá 1970

Var meðal­hiti í heim­in­um  árið 2022 1,15 gráðum hærri en meðaltal ár­anna 1850 til 1900 seg­ir í skýrsl­unni sem enn frem­ur minn­ir á lofts­lags­ráðstefn­una í Par­ís árið 2015 þar sem þátt­tökuþjóðirn­ar komust að sam­komu­lagi um að halda hlýn­un jarðar „vel und­ir“ tveim­ur gráðum yfir ársmeðaltal­inu 1850 til 1900, helst und­ir 1,5 gráðum.

Þeir jökl­ar heims­ins sem hafðir eru til viðmiðunar í rann­sókn­um WMO þynnt­ust um að meðaltali 1,3 metra á tíma­bil­inu frá októ­ber 2021 til sama mánaðar í fyrra og er þar um að ræða mun ör­ari þróun en meðaltal ára­tug­ar­ins á und­an. Sam­an­lögð meðalþynn­ing þeirra frá 1970 er hins veg­ar tæp­ir 30 metr­ar.

Í Evr­ópu bráðnuðu jökl­ar Alpa­fjall­anna meira en nokkru sinni og voru or­sak­irn­ar þar lít­il snjó­koma, sandryk frá Sa­hara-eyðimörk­inni í mars í fyrra og hita­bylgj­ur á tíma­bil­inu frá maí til sept­em­ber.

Bar­átt­an töpuð hvað jökla snert­ir

„Við höf­um þegar tapað bar­átt­unni hvað bráðnun jökla snert­ir vegna mik­ils þétt­leika kolt­ví­sýr­ings,“ seg­ir Petteri Taalas, for­stöðumaður WMO, í sam­tali við AFP-frétta­stof­una og bend­ir enn frem­ur á að í fyrra­sum­ar hafi 6,2 pró­sent af jöklamassa Alp­anna í Sviss horfið sem er það mesta frá upp­hafi mæl­inga.

„Þetta er al­vöru­mál,“ seg­ir for­stöðumaður­inn og nefn­ir hugs­an­leg­an skort á neyslu­vatni með brott­hvarfi jökla og einnig vatni til nýt­ing­ar í land­búnaði. Þá geti vatns­litl­ar ár hamlað skipa­sigl­ing­um um þær. „Þetta er meðal þess sem á eft­ir að skapa áhættu í framtíðinni,“ seg­ir Taalas og bend­ir enn frem­ur á minnk­un jökl­anna á Suður­skautsland­inu og Græn­landi. Þeir muni halda áfram að drag­ast sam­an til langs tíma litið, „nema við finn­um aðferð til að fjar­lægja kolt­ví­sýr­ing­inn úr and­rúms­loft­inu“, seg­ir for­stöðumaður­inn að lok­um.

mbl.is