Þurfum að hlaupa hratt og hraðar varðandi loftslagsmálin

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við skul­um hafa það á hreinu að við þurf­um að hlaupa hratt og við þurf­um að hlaupa hraðar“ sagði Guðlaug­ur Þór Þórðar­son, um­hverf­is- orku- og lofts­lags­ráðherra, varðandi lofts­lags­mark­mið Íslands, á opn­um fundi í um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd í morg­un. „Við get­um al­veg náð þessu mark­miði en við þurf­um að gera mjög mikið.“

Til­efni fund­ar­ins var ný­út­gef­in skýrsla um­hverf­is­stofn­un­ar, sem sýndi fram á að los­un gróður­húsaloft­teg­unda hef­ur auk­ist á síðustu árum.

Loft­lags­mark­mið Íslands eru að draga úr 55 pró­sent af los­un Íslands fyr­ir 2030, það er los­un á beinni ábyrgð Íslands. Vert er að nefna að stóriðnaður, sem er um 40 pró­sent af allri los­un á Íslandi fell­ur ekki und­ir beina ábyrgð Íslands held­ur Evr­ópska efna­hags­sam­bands­ins (EES).

Seg­ir Ísland hafa náð mikl­um ár­angri

Guðlaug­ur seg­ist ekki vilja gera lítið úr því stóra verk­efni sem sé fyr­ir hönd­um en seg­ir Ísland samt sem áður hafa náð mikl­um ár­angri.

Við erum að miða við árið 2005 þegar við vor­um 300.000 og ferðamenn voru 300.000.“ sagði Guðlaug­ur Þór.

„Nú erum við 400.000 og 2.3 millj­ón­ir ferðamanna í það minnsta, þannig að við höf­um samt náð mikl­um ár­angri þegar kem­ur að orku­skipt­um, í sam­göng­um þegar við tök­um þetta inn í reikn­ing­inn.“

Frá fundinum fyrr í dag.
Frá fund­in­um fyrr í dag. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

Guðlaug­ur sagði vinnu nú standa yfir í ráðuneyt­inu við að upp­færa aðgerðaáætl­un Íslands í lofts­lags­mál­um og verður skýrsl­an gef­in út seinna á ár­inu. Nýja áætl­un­in bygg­ir á eldri áætl­un um lofts­lags­mál­in en mun taka mið af til­lög­um sem leiða af sam­tali við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins, sveita­fé­lög, sam­tök í land­búnaði og fleiri um gerð á lofts­lags­veg­vísi fyr­ir at­vinnu­lífið.   

Stefn­ir í að ráðherra hafi sóað heilu kjör­tíma­bili 

Andrés Ingi Jóns­son, þingmaður pírata tók til máls á eft­ir Guðlaugi og sagði það mikið áhyggju­efni að los­un hefði auk­ist á síðastliðnum árum og að það bendi til þess að ekki hafi verið búið nógu vel í hag­inn fyr­ir græna end­ur­reisn að lok­um Covid eins og hafi verið kallað ít­rekað eft­ir.

Sagði Andrés það benda til mis­brests í kerf­inu þegar þurfi að bíða í ár­araðir eft­ir nýrri aðgerðaáætl­un og sagði hann um­hverf­is­ráðherra stefna í að hafa sóað heilu kjör­tíma­bili.

„Það heit­ir ekki að hlaupa hraðar að það séu næst­um kom­in þrjú ár síðan þessi aðgerðaráætl­un varð úr­elt. Það snýst um póli­tíska for­gangs­röðun ráðherra á verk­efn­um ráðuneyt­is­ins.“

mbl.is