Árétta losunarframreikninga Umhverfisstofnunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðuneytið hef­ur sent frá sér til­kynn­ingu þar sem los­un­ar­fram­reikn­ing­ar Um­hverf­is­stofn­un­ar eru áréttaðir. 

Um­hverf­is­stofn­un birti lands­skýrslu um los­un gróður­húsaloft­teg­unda í síðustu viku. Skýrsl­an er gef­in út ár­lega til Evr­ópu­sam­bands­ins og lofts­lags­samn­ings Sam­einuðu þjóðanna í sam­ræmi við skuld­bind­ing­ar Íslands í lofts­lags­mál­um.

Í til­kynn­ingu á vef Stjórn­ar­ráðsins seg­ir að skýrsl­an sem var nú skilað inni­haldi los­un­ar­bók­hald yfir los­un gróður­húsaloft­teg­unda og bind­ingu kol­efn­is úr and­rúms­lofti á Íslandi á ár­un­um 1990-2021. Þá hef­ur stofn­un­in sam­hliða birt fram­reikn­inga um áætlaða los­un og bind­ingu til árs­ins 2050.

„Í frétt­um und­an­farna daga hef­ur því verið slegið upp að langt sé í land að Ísland nái að upp­fylla sín mark­mið um sam­drátt í los­un gróður­húsaloft­teg­unda til árs­ins 2030. Í því sam­hengi er rétt að benda á nokk­ur atriði.

Fram­reikn­ing­ar Um­hverf­is­stofn­un­ar byggj­ast á aðgerðaáætl­un stjórn­valda í lofts­lags­mál­um frá ár­inu 2020. Sú aðgerðaáætl­un miðar við skuld­bind­ing­ar inn­an mark­miðs um 40% heild­ar­sam­drátt í los­un gróður­húsaloft­teg­unda ríkja ESB, Nor­egs og Íslands. Þar voru skuld­bind­ing­ar á beina ábyrgð Íslands 29%, auk þess sem þáver­andi rík­is­stjórn setti sér sjálf­stætt mark­mið um 40% sam­drátt,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni og því miðast aðgerðaáætl­un­in við göm­ul mark­mið sem hafa nú verið hert.

Fram­reikn­ing­arn­ir var­færn­ir

Í til­kynn­ing­unni er einnig minnst á að fram­reikn­ing­ar Um­hverf­is­stofn­un­ar séu að mörgu leyti var­færn­ir þar sem sam­kvæmt alþjóðlegri aðferðafræði fram­reikn­inga er ekki lagt mat á aðgerðir nema þær séu að fullu komn­ar til fram­kvæmda, auk þess sem þær þurfa að vera að fullu fjár­magnaðar út það tíma­bil sem fyr­ir­sjá­an­legt er að þær verði í fram­kvæmd. 

Af þeim 50 aðgerðum sem miðuðust við eldri mark­mið eru 49 komn­ar í fram­kvæmd eða vinnslu og eru sum­ar þeirra ekki metn­ar í fram­reikn­ing­um Um­hverf­is­stofn­un­ar.

Þá seg­ir að vinna standi nú yfir í ráðuneyt­inu við upp­færslu aðgerðaráætl­un­ar til sam­ræm­is við hert mark­mið. Stefnt er að út­gáfu henn­ar síðar á þessu ári.

mbl.is