Andy Cohen, kynnir raunveruleikaþáttanna Real Housewives of New Jersey, gekk næstum út meðan á tökum á endurfundaþætti síðustu þáttaraðar stóð.
Ástæðan var rifrildi Teresu Giudice og Melissu Gorga, sem virðist að mestu eiga rót að rekja til þess að Gorga og eiginmaður hennar mættu ekki í brúðkaup Giudice árið 2022. Gæti þetta hljómað smávægilegt í eyrum sumra, en í ljósi þess að Gorga er gift bróður Giudice er ekki skrýtið að Giudice hafi tekið því illa.
Cohen segist aldrei hafa upplifað neitt þessu líkt í tökum áður og hafi hann átt erfitt með að hafa stjórn á umræðunni. Hafi hann verið orðinn svo pirraður að hann hafi íhugað að ganga út af setti. Á einum tímapunkti missti hann stjórn á skapi sínu og þurfti hann að biðja Giudice afsökunar seinna í þættinum.
Endurfundaþættir sem þessir eru mjög vinsælir á meðal aðdáenda raunveruleikaþátta, þar sem ýmislegt kemst upp á yfirborðið er þátttakendur ræða sín á milli um það sem gekk á nýliðinni þáttaröð.
Giudice hefur verið hluti af þáttunum frá upphafi, en fyrsta þáttaröðin kom út árið 2008. Melissa Gorga kom fyrst inn í gestahlutverki í annarri þáttaröðinni en hefur verið í aðalhlutverki síðan í þeirri þriðju, sem kom út árið 2011.