„Ég held að við séum á réttri leið hvað það varðar að við horfumst í augu við vandann,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, í samtali við mbl.is en fyrr í dag var greint frá því að tap Reykjavíkurborgar af A-hluta starfseminnar nam 15,6 milljörðum króna árið 2022 en fjárhagsáætlun fyrir árið, með viðaukum, hafði gert ráð fyrir 2,8 milljarða tapi.
„Þessi halli sem er núna að koma í ljós – og við sáum strax í haust hvert stefndi, að þetta væri að fara yfir 15 milljarða hallinn á A-sjóði – er bara gríðarlega alvarlegt vandamál og við verðum að bregðast við því af mikilli hörku,“ segir Einar og nefnir að strax var farið í aðgerðir í síðustu fjárhagsáætlun.
„Það er alveg ljóst útfrá mínum bæjardyrum að við þurfum að gera meira. Við þurfum að stíga fastar til jarðar og draga úr útgjöldum og auka tekjur.“
Einar segir það ekki vera ásættanlegt að nánast ekkert veltufé sé frá rekstri og að borgin fjármagni sig með lántökum í því vaxtaumhverfi sem sé til staðar.
„Þannig að við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir og við höfum verið að stíga slík skref,“ segir hann og nefnir Borgarskjalasafn sem verður lagt niður.
„En það þarf meira til og nú erum við í fjárhagsáætlunargerð sem að mun birtast í haust þegar við leggjum hana fram og þar verður að finna enn frekari hagræðingu, af því að þrátt fyrir það að við sjáum teikn á lofti um það að við fáum aukna fjármuni inn í málaflokk fatlaðs fólks þá er áfram hér verðbólga og háttvaxtastig,“ segir Einar og bætir við að því þurfi að bæta undirliggjandi rekstur í borginni.
Einar nefnir að ráðningarreglur voru innleiddar í haust er sást að rekstrarhallinn væri svo mikill til þess að sporna við vexti í starfsmannahaldi.
„Alls staðar annarsstaðar en þar sem við erum undirmönnum, svo sem í leikskólum og ýmissi velferðarþjónustu þar sem við höfum lögbundnar skyldur jafnvel, eða þá að krafan um þjónustu er mjög mikil, eins og hvað varðar leikskólamálin. Þannig að við erum ekki að draga saman seglin í ráðningum þar.“
Er það ekki ákveðin viðurkenning á því að miðstýrða borgarapparatið er of stórt?
„Ég held að það megi alveg horfa með gagnrýnum augum á það hvernig við stöndum með fjölgun starfsmanna borgarinnar. Ég vil leggja áherslu á það að áður en við ráðumst í einhverjar róttækar aðgerðir hvað það varðar þá þarf að rýna það mjög vel og við erum að gera það – stíga ákveðin skref til þess að horfa gagnrýnið á kerfið.“
Einar segir að mikilvægt sé að muna í hagræðingaraðgerðunum að í viðkvæmum þjónustuflokkum sé þjónusta tryggð. Hins vegar þurfi að taka á ósjálfbærum vexti.
„Þannig að ég ætla ekki að úttala mig um það hvernig við ætlum að halda utan um það, en hagræðing felur alltaf í sér það að við erum í raun og veru að fækka stöðugildum,“ segir hann og bætir við að langstærstur hluti útgjalda borgarinnar fari í laun.
Borgarstjóri minnist sérstaklega á málefni fatlaðs fólks sem þó er þekkt stærð fyrirfram. Er ekki dálítið ódýrt að skella skuldinni á þann málaflokk þegar það lá fyrir skortur á fé?
„Ég ætla ekki að tjá mig um það hvernig haldið var á málum áður en ég kom í borgina. Ég þarf bara að horfa á stöðuna eins og hún er. Ég viðurkenni það að ég las þessar áætlanir þegar ég bauð mig fram og sá fyrir mér að það yrðu átök að ná niður þessum 2,8 milljarða halla. Þannig að þetta verkefni að skera niður eða hagræða fyrir 15,6 milljarða er allt önnur staða heldur en ég bjóst við, en það þýðir ekki að kveinka sér undan því. Við þurfum bara að fara í verkin og gera það vel, en á sama tíma að tryggja það að grunnþjónustan sé í lagi.“
Einar ítrekar að um erfiðar ákvarðanir séu að ræða. Hann segist vona að flokkarnir í borgarstjórn, bæði minnihluti og meirihluti, geti unnið að verkefninu saman.
„Af því það er ekki gott að fara í gegnum erfitt hagræðingarskeið með miklar pólitískar deilur. Við berum öll ábyrgð og um leið og ég segi það að við í meirihlutanum erum tilbúinn í að hlusta á tillögur minnihlutans og taka þær inn eftir atvikum, þá vonast ég eftir samvinnu frá minnihlutanum um að styðja erfið mál sem við þurfum að fara í rekstrinum.“
Myndirðu þá segja að Framsóknarflokkurinn eigi frekar samleið með þeim sem standa í minnihlutanum af því þú talar á þessum nótum?
„Ég er bara að vekja athygli á því að þegar sveitarfélög fara í gegnum erfiða hluti – og í fyrirtækjarekstri og alls staðar þar sem þarf að takast á við hagræðingu – þá er betra og farsælla fyrir borgarbúa að það sé gert í meiri sátt og samvinnu heldur en í miklum átökum og ég vonast eftir því,“ segir Einar að lokum.