Love Island-stjörnurnar Paige Turley og Finley Tapp eru hætt saman eftir þriggja ára samband. Parið stóð uppi sem sigurvegarar í sjöttu þáttaröð bresku raunveruleikaþáttanna, sem var jafnframt sú fyrsta sem tekin var upp að vetri til.
Samkvæmt heimildarmanni The Sun er Turley flutt aftur í heimabæ sinn í Skotlandi, en parið bjó saman í Manchester þegar allt lék í lyndi. Á meðan er Tapp í ferðalagi um Bandaríkin með vinum sínum, sem allir eru áhrifavaldar.
Sambandsslitin þykja koma nokkuð á óvart, þar sem þau eru eitt af vinsælustu pörunum sem myndast hafa í þáttunum. Fyrrnefndur heimildarmaður segir hins vegar að þau séu ennþá ung og hafi ákveðið að sambandið væri ekki til frambúðar.