„Mikilvægara að fatlað fólk komist leiða sinna“

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ (t.v.) og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, …
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ (t.v.) og Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, formaður Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg.

Ekki er vitað hvaða úrræði verða til taks fyrir aðgengi fatlaðs fólks dagana 16. til 17. maí þegar leiðtogafundur Evrópuráðsins verður haldinn á Íslandi. Víðtækar götulokanir verða vegna fundarins. 

Búist er við að um 900 gestir komi til landsins í tengslum við fundinn en lokað verður fyrir umferð ökutækja af öryggisástæðum, en á vef Stjórnarráðsins er bent á að hægt verði að fara um gangandi og hjólandi. 

Kortið sýnir hvar verður lokað fyrir umferð af öryggisástæðum á …
Kortið sýnir hvar verður lokað fyrir umferð af öryggisástæðum á leiðtogafundi Evrópuráðsins.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, segir það mikið áhyggjuefni fyrir fatlað fólk sem sé í hjólastólum eða eigi erfitt með gang, að ekki sé hægt að keyra inn í miðbæinn.

Áhyggjuefni fyrir fatlaða í miðbænum 

Í samtali við mbl.is segir Þuríður það sérstaklega áhyggjuefni fyrir fatlaða sem eiga heima í miðbænum, en þeir gætu þurft að sitja heima við á meðan á fundinum stendur, þar sem þeir komist ekki langt án bíls. 

„Það er algjörlega nauðsynlegt að það fólk sem býr þarna innan þessa svæðis og notar hjólastól eða er með P-merki hafi möguleika að komast um á bíl. Það verður að tryggja að þeir einstaklingar sem ekki geta farið fótgangandi, eða á hjóli, komist leiða sinna.“

Þuríður segir ÖBÍ hyggjast skoða málið, en að þeim hafi ekki borist neitt um málið enn sem komið er. Hún segir að yfirleitt séu gerðar sérstakar ráðstafanir í kring um viðburði eins og menningarnótt, til að fatlað fólk komist leiða sinna, en ekki er víst að sömu ráðstafanir gildi að þessu sinni. 

Funda um málið í næstu viku

Elísabet Guðrúnar Jónsdóttir, formaður Aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks hjá Reykjavíkurborg, segir að fundað verði um málið á fimmtudaginn næstkomandi í samtali við mbl.is. 

Ekki liggur fyrir hvaða lausnir verði lagðar til á fundinum, en að einhver úrræði verði kynnt fyrir nefndinni sem geti komið með athugasemdir, sé eitthvað ábótavant við úrræðin. 

„Mér skilst að það séu einhverjar fyrirætlanir til þess að koma til móts við þessa hópa, hins vegar ef okkur finnst það ekki vera fullnægjandi þá munum við klárlega gera athugasemdir við það.“ segir Elísabet. 

„Það er mikilvægara að fatlað fólk komist leiða sinna í sínu hverfi, heldur en einhverjir Evrópuleiðtogar fái að vera í friði“ segir Elísabet. 

mbl.is