Það er misjafnt hvað fólk vill fá út úr ferðalögum sínum. Sumir vilja upplifa fjölbreytta matarsenu á framandi slóðum eða bera list eftir fræga listamenn eigin augum, á meðan aðrir finna fegurðina í náttúrunni og arkitektúr borganna.
Hvort heldur sem er þá eru fæstir sem myndu slá hendinni á móti fallegu útsýni, en á bókunarsíðu Airbnb má finna fjölda eigna með stórbrotnu útsýni. Ferðavefurinn tók saman lista yfir eignirnar með besta útsýninu.
Stepantsminda, Georgíu
Í Georgíu finnur þú einstakan fjallakofa sem staðsettur er á Kazbegi-fjalli í yfir 3 þúsund metra hæð yfir sjávarmáli. Fjallakofinn er tilvalin svefnstaður fyrir ævintýraþyrsta ferðalanga, en útsýnið frá eigninni er stórkostlegt.
Paraty, Brasilíu
Útsýnið frá þessari sjarmerandi eign í Brasilíu er heldur frábrugðið útsýninu frá fjallakofanum, en það er ekki síður töfrandi. Stór bogadreginn gluggi veitir guðdómlegt útsýni yfir suðræn tré og gróskumikla náttúru sem umlykur eignina.
Puno, Perú
Við Titicaca-vatn í Perú er að finna afskekktan skála með guðdómlegu útsýni yfir vatnið og fjöllin í kring. Skálinn er hinn fullkomni staður til að slaka á og jarðtengja sig, enda mikil náttúrufegurð sem einkennir staðinn.
Quintay, Chile
Í um 90 mínútna akstursfjarlægð frá Santiago, höfuðborg Chile, er að finna krúttlega eign á klettaströnd með ótrúlegu 180 gráðu útsýni yfir Kyrrahafið. Eignin hefur verið innréttuð á skemmtilegan máta þar sem útsýnið fær að njóta sín til fulls.
Førde, Noregi
Útsýnið frá þessu litla húsi í Noregi er engu öðru líkt þökk sé stórum hringlaga glugga sem rammar nærliggjandi fjallagarð fullkomlega inn. Þó eignin sé lítil þá eru þar allar helstu nauðsynjar sem gestir þurfa til að njóta sín til fulls.
Oia, Grikklandi
Útsýnið frá þessari fallegu eign í Grikklandi er sannarlega töfrandi, en frá veröndinni er guðdómlegt útsýni yfir Eyjahaf. Það skemmir svo ekki fyrir að geta upplifað stórbrotið sólsetur frá eigninni að kvöldi til.