Kjörþögli í Vesturbæjarskóla

Iris Edda Nowenstein ver doktorsritgerð sína „Að byggja sér breytilegt …
Iris Edda Nowenstein ver doktorsritgerð sína „Að byggja sér breytilegt fallakerfi: Tileinkun þágufalls í máltöku barna“ við Háskóla Íslands á föstudaginn en hún segir íslenska þágufallið heimsfrægt. Ljósmynd/Háskóli Íslands/Gunnar Sverrisson

„Fáir vita kannski að íslenska þágufallið og íslensk fallmörkun almennt eru heimsfræg fyrirbæri,“ segir Iris Edda Nowenstein í samtali við Morgunblaðið en hún varði á föstudag doktorsritgerð sína Að byggja sér breytilegt fallakerfi: Tileinkun þágufalls í máltöku barna við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og sóttist vörnin vel telur hún.

Segir Iris það magnað hve margir málfræðingar um gervalla heimsbyggðina hafi glímt við það verkefni að skilja og útskýra íslenska fallmörkun. „Fallmörkunin í íslensku kemur enn svo sterkt fram í beygingunni miðað við flest önnur germönsk mál, þar sem fall hefur ekki varðveist með sama hætti, það er kannski bara á fornöfnum, með sumum lýsingarorðum og á ákveðna greininum eins og í þýsku,“ útskýrir Iris.

Meðal þess sem skapar þágufallinu íslenska þessa heimsfrægð segir Iris vera hina föstu orðaröð í íslensku „og vanalega fer þetta ekki saman, sterk fallmörkun og föst orðaröð, við erum vön því að tungumál noti aðra hvora aðferðina til að merkja hlutverk orðanna í setningu, hvað sé frumlag, eða gerandi í setningunni, og hver sé að gera hvað við hvern“, segir hún og bætir því við að þágufallsvirkni í íslensku sé mjög mikil. „Það er mikil eldfjallavirkni á Íslandi og mikil þágufallsvirkni,“ bætir málvísindamaðurinn við til útskýringar þessum höfuðskepnum.

Vísindin efla alla dáð. Frá vörninni á föstudaginn. Frá vinstri: …
Vísindin efla alla dáð. Frá vörninni á föstudaginn. Frá vinstri: Anton Karl Ingason, dósent við HÍ, Ólöf Garðarsdóttir, forseti hugvísindasviðs, Miriam Butt andmælandi, prófessor í Konstanz, Iris, Misha Becker andmælandi, prófessor við University of North Carolina, Gauti Kristmannsson, deildarforseti íslensku- og menningardeildar, og Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði og leiðbeinandi Irisar. Á myndina vantar Charles Yang, prófessor við University of Pennsylvania, og Joel Wallenberg, dósent við University of York. Ljósmynd/Háskóli Íslands/Gunnar Sverrisson

Rannsóknir um áratuga skeið

Sérstaða íslenska þágufallsins er mikil virkni þess þrátt fyrir að vera ekki sjálfgefið í málkerfinu að sögn Irisar. „Sjálfgefna mynstrið í kerfinu er nefnifall fyrir frumlög, þolfall fyrir andlög og svo kemur þágufallið þarna inn og er í raun ekki það algengasta en er engu að síður svona virkt í íslensku,“ segir hún og kveður málfræðinga á alþjóðavettvangi hafa rannsakað styrk og sérstöðu íslenska þágufallsins um hálfrar aldar skeið.

Aldrei hafi hins vegar verið lögð sérstök áhersla á hvernig börn tileinki sér þetta ólíkindatól sem þágufallið er og það kveikti áhuga Irisar og leiðbeinanda hennar við doktorsverkefnið, Sigríðar Sigurjónsdóttur, prófessors í íslenskri málfræði.

„Mig langaði til að kafa djúpt í það hvernig börn tileinka sér þetta kerfi og skoða hvað það segir okkur um grundvallarspurningar um máltöku barna, spurningar um hvernig þau tileinka sér málkerfið, hvað þau nota sem vísbendingar um merkingu og hvernig þau tengja saman form og merkingu,“ segir Iris af kveikjunni að rannsókninni.

Að klóra er ekki það sama og að klóra

Hún segir þá hugmynd hafa verið mjög ríkjandi að við kennum börnum mál og þau hermi bara eftir. Þar séu þó hvergi nærri öll kurl komin til grafar. Sýni málvísindarannsóknir að börn séu auk þess skapandi við máltileinkun sína, segi hluti sem þau hafi ekki endilega heyrt áður, svo sem „ég syngjaði“ eða „tveir maðar“. „Það sýnir að þau eru að byggja sér upp sitt eigið kerfi með eigin reglum sem þau beita svo á ný orð,“ segir Iris.

Annar þáttur sem hún skoðaði í rannsókn sinni er hvernig fall nýtist börnum, fallið sé í mörgum tilfellum í íslensku það eina sem greinir merkingu í sundur. „Eins og munurinn á því að klóra einhverjum, sem er notalegt, og klóra einhvern, sem veldur skaða. Þegar þú klórar einhverjum verður sá að vera lifandi en það gildir ekki þegar þú klórar einhvern, þú getur til dæmis klórað vegginn. Þarna er fall það eina sem greinir í sundur merkingu og það þykir athyglisvert í fræðum um hvað börn gera til að átta sig á hvað allur þessi hávaði merki eiginlega,“ segir rannsakandinn sposkur, erfiðara sé að benda á merkingu sagna en ákveðin áþreifanleg fyrirbæri eins og stól eða bolta.

Iris kynnir niðurstöður doktorsverkefnis síns á veggspjaldi á BUCLD, sennilega …
Iris kynnir niðurstöður doktorsverkefnis síns á veggspjaldi á BUCLD, sennilega stærstu og virtustu máltökuráðstefnu í heimi, í Boston fyrr á árinu. Ljósmynd/Aðsend

Iris viðurkennir fúslega að ekki sé að því hlaupið að fjalla um íslenska fallmörkunarkerfið án þess að þágufallssýkin svokallaða komi þar við sögu – eða þágufallshneigð svo notað sé hlutlausara hugtak. „Börn heyra hvort tveggja í sínu málumhverfi, „mig langar“ og „mér langar“, en líka „mig langar“ og „honum langar“ hjá sömu manneskjunni og þá er þar á ferð innri breytileiki sem skilyrtur er af málfræðilegum þáttum,“ segir Iris.

Sálræn beygingarfræði

Í framhaldinu viðurkennir hún að hafa annað veifið kveðið upp eftirfarandi úrskurð yfir fólki sem kvarti undan máltilfinningu annarra: „Þú ert pottþétt þágufallssjúkur í þriðju persónu fleirtölu.“ Sumir málnotendur noti upprunalega þolfallið í dæminu „mig langar“ en noti eftir sem áður þágufallið í þriðju persónu fleirtölu og segi „konunum langar“ í stað „konurnar langar“.

„Þarna er breytileiki sem er skilyrtur. Þágufall er mun algengara með þriðju persónu en fyrstu persónu og svo er líka meira þágufall þegar nefnifall og þolfall líta eins út,“ segir Iris og tekur dæmi af aukinni tilhneigingu til þágufalls í orðasamböndum á borð við „konunum langar“ (í stað „konurnar langar“) en þegar um mennina/„mönnunum“ langar er að ræða, orð sem beygist ólíkt í nefnifalli og þolfalli fleirtölu.

„Þetta virðist hafa áhrif, fólki líður einhvern veginn verr með að segja eitthvað á borð við „konurnar langar til útlanda“ því þá lítur þolfallið út eins og nefnifall og við höfum tilfinningu fyrir því að þarna eigi að vera aukafallsfrumlag,“ útskýrir Iris þessa sálrænu innviði beygingarfræðinnar.

Sigríður og Iris kynna niðurstöður á BUCLD-ráðstefnunni í Boston.
Sigríður og Iris kynna niðurstöður á BUCLD-ráðstefnunni í Boston. Ljósmynd/Aðsend

Með 750.000 orða gagnasafn

„Það sem mig langaði að kanna hjá börnunum er hvort þau færu beint í hundrað prósent þágufall eða hvort þau lærðu þessi flóknu blæbrigði á því hvenær við notum þolfall og hvenær við notum þágufall með þeim sögnum sem eru með breytilega fallmörkun, þessum þágufallssýkisögnum,“ segir hún og bætir því við að það hvernig börn tileinka sér tungumál móti þróun málsins þar sem börn búi sér til reglur sem stundum eru ólíkar reglum fyrri kynslóða.

Hvernig skyldi fræðimönnum þá vera unnt að skoða þætti á borð við málmyndun og -tileinkun hjá yngstu notendum máls?

„Þar notaði ég hvort tveggja tilraunagögn og gagnasafnagreiningar. Ég safnaði saman og fékk að nota mikið magn gagna um samskipti barna og foreldra sem hafa verið tekin upp. Þar fékk ég gögn frá Sigríði leiðbeinanda mínum og eins frá Jóhönnu Einarsdóttur talmeinafræðingi og fleirum og á endanum var ég komin með 750.000 orða gagnasafn og sótti þaðan algengustu sagnirnar í máli barna og greindi þær með hliðsjón af kenningu um virkni reglna sem heitir virkniþröskuldurinn,“ segir Iris af rannsóknum sínum.

Iris starfar sem talmeinafræðingur á Landspítalanum og sameinar þar málvísindin …
Iris starfar sem talmeinafræðingur á Landspítalanum og sameinar þar málvísindin og klíníska vinnu með tungumálið. Ljósmynd/Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Þröskuldur þessi snýst um hve miklar undantekningar reglur þoli og notaði Iris hann til að skoða hvort börn gætu leitt út reglur um fallmörkun úr málumhverfinu. Leiddi sú skoðun meðal annars í ljós að íslensk börn alhæfa þágufall, það gera þýsk börn hins vegar ekki að sögn Irisar, þau alhæfa hins vegar nefnifall og þolfall. Með alhæfingu er átt við að á íslensku væri til dæmis sagt „viltu knúsa mér“ sem passar við þá merkingu að þágufall sé gjarnan tengt við lifandi viðtakanda, segir Iris.

Að „dánlóda“ og „dömpa“

Bendir hún á að framangreind málnotkun rími ágætlega við það að við notum gjarnan þágufall með nýjum sögnum sem hafa eiginlega eða yfirfærða hreyfingu, tölum til dæmis um að „dánlóda einhverju“ og „dömpa einhverjum“.

Iris fékk 150 börn til að taka þátt í tilraunum þar sem hún fékk þau til að túlka myndir með ýmsum mismunandi túlkunum á atburðum og bauð þátttakendum svo að velja túlkun út frá fallmörkun sagna, ýmist raunverulegra eða „bullsagna“. Með bullsögnum er unnt að fjarlægja þáttinn fyrri þekkingu hjá barninu. „Hvað velja þau ef ég segi „hundurinn gorpar“ á móti „hundinum gorpar“? Svo fékk ég þau til að velja fallmörkun með sögnum sem eru til og nýjum sögnum til að komast að því hvaða merkingu þau leggja í þágufall,“ segir Iris.

Auk þeirra verkefna sem hún safnaði sjálf gat hún nýtt mikið úr geysiumfangsmiklu verkefni Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emeriti í íslenskri málfræði, og framangreindrar Sigríðar um málfræðilegar afleiðingar stafræns sambýlis. „Þar vorum við með börn og foreldra þannig að í verkefninu gat ég borið saman hvort foreldrar með meiri þágufallshneigð ættu börn með meiri þágufallshneigð. Svo reyndist reyndar ekki vera en mögulega var ég með of fá atriði til að fá þannig tengingu upp,“ segir Iris en bendir þó á að börn hafi tileinkað sér sömu mynstur í fallmörkuninni og foreldrar þeirra höfðu og sé þetta í fyrsta sinn sem slíkt sé rannsakað á Íslandi.

Þágufall tengt lifandi viðtakendum

Spurð út í hvernig harðkjarnamálvísindamanneskju hafi gengið að henda sér út í slíka rannsókn á leikskólabörnum kveðst Iris hafa sótt mikið í reynslubrunn Sigríðar leiðbeinanda síns sem hefur marga fjöruna sopið er að máltöku barna kemur og kennt þau vísindi við háskólann um áratuga skeið. Eins ljóstrar Iris því upp að önnur tveggja meistaragráða hennar sé í talmeinafræði en hún starfar sem talmeinafræðingur á Landspítalanum einn dag í viku.

Iris ásamt stjúpdóttur sinni Elísabetu Hauksdóttur og syni sínum Ými …
Iris ásamt stjúpdóttur sinni Elísabetu Hauksdóttur og syni sínum Ými Haukssyni sem hún á með Hauki Bragasyni, textasmið, ritstjóra og goða í Ásatrúarfélaginu. Ljósmynd/Halldóra Ólafsdóttir

„Í talmeinafræði fær maður rosalega mikla þjálfun í að reyna að komast að einhverju um málfærni barna, leggja fyrir málþroskapróf og ná fram sjálfsprottnu tali hjá börnum. Sú þjálfun nýttist mjög vel þegar kom að því að fara í svona umfangsmikla gagnasöfnun hjá börnum,“ segir hún og er því næst spurð út í sjálfa niðurstöðu þessarar viðamiklu doktorsrannsóknar.

„Niðurstaðan er að fall í íslensku er mjög tengt merkingu, nokkuð sem hefur ekki verið óumdeilt í fyrri rannsóknum. Þannig að börn – og væntanlega fullorðnir líka – tengja þágufall meira við lifandi viðtakendur, skynjendur og hreyfingu, nefnifall meira við gerendur og þolfall við þolendur,“ segir Iris.

Síðastir þeirra sem lærðu íslensku sem börn

Þar kveður hún á ferð mynstur í málkerfinu sem börn læri þrátt fyrir að frá þeim séu miklar undantekningar. Þetta sýni að börn geta lært reglur þrátt fyrir að þeim fylgi undantekningar, að því gefnu að undantekningarnar séu ekki of viðamiklar.

„Þetta sýnir okkur að það sem er markað, eins og þágufall, getur vissulega haft virkni og í íslensku er hún óvenjumikil. Þetta kallar á að í líkönum um máltöku barna gerum við ráð fyrir að ekki bara algengustu mynstrin séu virk,“ heldur hún áfram. Síðustu niðurstöðu verkefnisins segir hún svo þá að börn geti tileinkað sér breytileika í málumhverfinu en um leið séu þau að byggja upp eigið kerfi og móti þannig þróun tungumálsins.

„Ég hef áhuga á því almennt í mínum rannsóknum hvernig …
„Ég hef áhuga á því almennt í mínum rannsóknum hvernig börn læra mál og hvað gerist þegar þau ná ekki tökum á málinu og svo þegar fólk missir mál, hvort tveggja vegna þess að það notar ekki málið, eins og til dæmis í tilfelli sumra Vestur-Íslendinganna, og vegna veikinda,“ segir Iris. Ljósmynd/Aðsend

Til að veita nokkra innsýn í menntun Irisar lauk hún BA-prófi í almennum málvísindum og í framhaldinu MA-prófi. „Þar fékk ég að taka þátt í alls konar áhugaverðum verkefnum, ég var til dæmis aðstoðarmaður í ferð þar sem við vorum að tala við eina síðustu Vestur-Íslendingana sem lærðu íslensku sem börn.

Samhliða MA-náminu fór ég svo að búa mig undir MS-nám í talmeinafræði, fór svo í það og hef síðan þá unnið alltaf að einhverju leyti á Talmeinaþjónustu Landspítalans. Ég var svo með í því að sækja um þennan stóra styrk sem Sigga [Sigríður Sigurjónsdóttir] og Eiríkur [Rögnvaldsson] fengu og þegar hann var kominn fór ég í doktorsnám í því verkefni,“ segir hún frá.

Hvernig við lærum og missum mál

Hélt hún þó ávallt tengslum sínum við Landspítalann og skoðar enda í nýdoktorsverkefni sínu tengsl þeirra tveggja heima sem hún hefur lifað og hrærst í, það er málvísindanna annars vegar og klínískrar vinnu með tungumálið hins vegar.

„Verkefnið snýst um mál og minni og kemur til dæmis inn á heilabilun þar sem fólk getur átt erfitt með mál og síðan er einnig að koma í ljós að börn með málþroskaraskanir geti átt erfitt með ákveðin minnisverkefni. Ég hef áhuga á því almennt í mínum rannsóknum hvernig börn læra mál og hvað gerist þegar þau ná ekki tökum á málinu og svo þegar fólk missir mál, hvort tveggja vegna þess að það notar ekki málið, eins og til dæmis í tilfelli sumra Vestur-Íslendinganna, og vegna veikinda, svo sem heilablóðfalls eða taugahrörnunarsjúkdóma.“

Iris ber þá von í brjósti að geta, er fram …
Iris ber þá von í brjósti að geta, er fram líða stundir, lagt stund á rannsóknir sem skipta máli í víðara samhengi, hvort tveggja fyrir þekkingu á tungumálinu en eins sem klínískt nothæf hjálpartæki þegar fólk á í erfiðleikum með eitthvað sem tengist málinu. Ljósmynd/Aðsend

Áhrif framangreindra atriða, hvernig við lærum mál og missum mál, á þróun tungumálsins eru Irisi hugleikin. „Það eru svona þau viðfangsefni sem ég hef verið að stefna að í þessu námi í málvísindum og talmeinafræði,“ segir hún og kveðst á þeim starfsvettvangi sem nú bíður hennar ætla að sinna frekari málvísindarannsóknum, en með meiri tengingu við talmeinafræðina en verið hefur.

„Búin að vinna með Siggu lengi“

„Ég ætla að halda áfram starfi mínu á Landspítalanum þar sem maður fær að hjálpa fólki beint, maður er dálítið lengur að sjá praktískan ávinning af rannsóknum stundum miðað við þegar starfað er með fólki sem þarf aðstoð með sín vandamál, úrræði og ráðgjöf. Þá er mjög gefandi að vera hluti af sterku teymi sem vinnur að hagsmunum fólks,“ segir Iris sem þó ber þá von í brjósti að geta, er fram líða stundir, lagt stund á rannsóknir sem skipta máli í víðara samhengi, hvort tveggja fyrir þekkingu á tungumálinu en eins sem klínískt nothæf hjálpartæki þegar fólk á í erfiðleikum með eitthvað sem tengist málinu.

Iris lýkur lofsorði á samstarf sitt við doktorsleiðbeinandann Sigríði Sigurjónsdóttur. „Ég er búin að vinna með Siggu lengi, hún var leiðbeinandinn minn í MA-verkefninu í málvísindum líka og svo vorum við náttúrulega saman í þessu stóra verkefni um stafrænt málsambýli auk þess sem hún leiðbeindi mér núna í doktorsnáminu allan tímann, frá 2017,“ segir Iris.

Kveður hún Sigríði úrvalsleiðbeinanda sem hvort tveggja gefi nemandanum sjálfstæði auk þess að ýta undir að hann móti sjálfur sína eigin fræðilegu sýn. „Samt fylgist hún nógu vel með til að pikka í mann og krefjast þess að maður sé nákvæmur og áreiðanlegur í sínum vinnubrögðum,“ heldur doktorinn nýbakaði áfram og getur þess einnig að leiðbeinandinn hafi gætt þess vel að hún ætti jafnframt líf utan við akademíuna, „hún hefur alveg skilning á að halda manni aðeins á jörðinni í þessu öllu“, segir Iris glettnislega.

Franskur skiptinemi kemur til Íslands

Líklega er það engin tilviljun að mál og málþroski eiga hug Irisar allan. Hún er frönsk í móðurættina og á argentínskan föður og hóf eigið íslenskunám ekki fyrr en hún var orðin sex ára. „Mamma kom til Íslands sem AFS-skiptinemi þegar hún var 17 ára, það var 1984, og hún féll algjörlega fyrir landinu eins og svo margir hafa gert. En hún valdi ekki einu sinni Ísland, valdi bara Norðurlöndin og endaði hér, hjá mjög góðu fólki. Ég heiti til dæmis Edda í höfuðið á konunni sem hún var hjá,“ útskýrir Iris, Iris Edda eins og fram kom í upphafi þessa viðtals.

Iris man glöggt þegar hún mætti í Vesturbæjarskólann sex ára …
Iris man glöggt þegar hún mætti í Vesturbæjarskólann sex ára gömul og skildi ekki eitt orð af því sem sagt var í kringum hana. Ljósmynd/Aðsend

Að lokinni skiptinemadvöl á Íslandi hélt móðir hennar til Frakklands á ný og settist við að nema skandinavísk fræði í Sorbonne þar sem hún hitti annan nemanda, argentínskan, sem var mikill áhugamaður um Íslendingasögur. „Einhvern veginn urðum við bróðir minn til þarna úr þessu og svo vildi mamma flytja aftur hingað og það gerðum við 1997 þegar ég var sex ára,“ segir hún frá.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og nú býr faðir hennar í Belgíu en móðir hennar er gift íslenskum manni. „Við bróðir minn eigum bæði íslenska maka svo við erum nú orðin dálítið íslensk en ég lærði ekki málið fyrr en ég var sex ára og man enn þá hvernig það var að koma í skólastofu í Vesturbæjarskóla og skilja ekki neitt,“ rifjar hún upp.

Greip til kjörþögli

Irisi leist ekki í blikuna til að byrja með, enda enn áratugir í að hún verði doktorsritgerð á sviði hinna fínþráðóttari vefja málvísindanna. „Fyrsta árið sem ég var í skóla talaði ég ekki neitt og ég komst seinna að því að það er kallað kjörþögli og er ákveðið kvíðaviðbragð sem þekkist hjá börnum,“ segir Iris og bendir á enska heiti viðbragðsins, „selective mutism“.

„Þetta er viðbragð við því að koma inn í umhverfi þar sem maður skilur ekki neitt og getur ekki tjáð sig. Svo var ég komin með góð tök á íslensku en gat ekki komið mér í að tala,“ segir Iris frá sem nú talar algjörlega lýtalausa íslensku auk þess að tala frönsku við móður sína, spænsku við föður sinn „og nú á ég lítinn strák sem fæddist einmitt þegar ég var í doktorsnáminu og það var erfið ákvörðun hvaða tungumál ég ætlaði að tala við hann“, játar Iris en lendingin þar varð franska.

Faðirinn og maður Irisar, Haukur Bragason, textasmiður, ritstjóri og goði í Ásatrúarfélaginu, talar hins vegar íslensku við drenginn, Ými Hauksson, en auk þess á Haukur Elísabetu sem er stjúpdóttir Irisar. Bróðir Irisar starfar sem ráðgjafi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL sem almennt kallast, og á að baki BS-próf í sálfræði.

„Ég er alltaf svo spennt þegar eitthvað gerist í máltökunni hans,“ segir hún og á vitanlega við soninn Ými, „reyndar vantar langtímarannsóknir á tvítyngi með íslensku og öðru máli, greyið litla, hann var klárlega orðinn máltökuverkefni í móðurkviði,“ segir Iris og hlær. Fræðimannseðlið ávallt skammt undan og þar ljúkum við fróðlegu spjalli um þágufall í málfræðilegum raunveruleika íslenskra barna og margt fleira sem slæddist með.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: