Too Hot to Handle-stjarnan Francesca Farago er trúlofuð TikTok-stjörnunni Jesse Sullivan.
Farago skaust á stjörnuhimininn eftir að hún tók þátt í fyrstu þáttaröð raunveruleikaþáttanna Too Hot to Handle á Netflix árið 2020. Farago og Sullivan eru sögð hafa byrjað að hittast í júlí 2021 en tekið sér pásu árið eftir.
Á meðan þau voru í pásu tók Farago þátt í raunveruleikaþáttunum Perfect Match á Netflix, en þau tóku svo aftur saman eftir að upptökum lauk.
Raunveruleikastjarnan deildi gleðifregnunum með myndaröð á Instagram þar sem hún sagðist vera orðin unnusta. „Við erum trúlofuð. Innsýn inn í mest töfrandi nótt allra tíma,“ skrifaði hún við rómantískar myndir af þeim.
Farago og Sullivan hafa verið áberandi á TikTok þar sem þau eru dugleg að deila myndskeiðum frá daglegu lífi sínu. Þó parið hafi notið mikilla vinsælda hafa þau einnig orðið fyrir miklu hatri frá andstæðingum LGBTQIA+.
„Kærastinn minn er trans og hann fær líflátshótanir á pósta sína,“ sagði Farago í samtali við Variety. „Sérstaklega eins og heimurinn er núna, mér finnst eins og það sé svo mikið í gangi. Það er brjálað, hatrið í garð samfélagsins okkar. Hatrið er miklu háværara en nokkuð annað,“ bætti hún við.