Lögreglan hefur áhyggjur af verkfalli BSRB

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, og Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, …
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, og Sonja Ýr Þor­bergs­dótt­ir, formaður BSRB. Samsett mynd

Fyrirhugað verkfall starfsfólks leik- og grunnskóla, sem félagsmenn BSRB hafa nýlega samþykkt, gæti haft áhrif á löggæslu á leiðtogafundi Evrópuráðsins síðar í mánuðinum.

Verkfallsaðgerðir hafa verið samþykktar í þó nokkrum sveitarfélögum á Suður- og Suðvesturlandi og eiga fyrstu aðgerðirnar að hefjast þann 15. maí ná­ist sam­komu­lag ekki. Leiðtogafundurinn verður haldinn dagana 16. og 17. maí.

Lögregluþjónar sem eiga að standa vaktina eiga börn í skólunum sem verkfallið bitnar á. Karl Steinar Valsson, yf­ir­lög­regluþjónn alþjóðasviðs rík­is­lög­reglu­stjóra, segir lögregluna óneitanlega hafa áhyggjur af fyrirhuguðu verkfalli.

„Við erum að fylgjast með því hvort að þetta muni hafa áhrif á að það geti allir komið til starfa sem að þurfa að gera það. Það er alveg ljóst að við munum engan afslátt gefa af öryggisþættinum þannig að við verðum þá að finna einhverjar aðrar lausnir,“ segir Karl Steinar.

„Það er alveg ljóst að verkfall á þessum tíma er ekki að hjálpa okkur neitt.“

mbl.is