Að mati margra er hvergi betra að upplifa íslenskt sumar en uppi í sumarbústað. Á bókunarvef Airbnb má finna fjölda heillandi sumarhúsa sem bjóða upp á lúxus og fallega hönnun.
Ferðavefur mbl.is tók saman fimm sjarmerandi sumarhús á Íslandi sem hægt er að leiga út, en það er falleg litapalletta og náttúruparadís sem einkennir þessi sumarhús.
Þetta glæsilega hús er staðsett á Flateyri á Vestfjörðum og er á tveimur hæðum. Húsið hefur verið fallega innréttað og greinilegt að hvert smáatriði hefur verið útpælt. Snyrtileg verönd með heitum potti setur svo punktinn yfir i-ið.
Húsið er til útleigu á Airbnb, en það státar af fjórum svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum. Svefnpláss er fyrir allt að níu gesti hverju sinni.
Á Efri-Úlfarsstöðum í grennd við Hvolsvöll er að finna lítið hús sem reist var árið 1923. Því hefur verið breytt í sjarmerandi stúdíóíbúð sem er nú til útleigu á Airbnb. Hráir steyptir veggir gefa eigninni sterkan karakter.
Frá húsinu sjást Hekla, Eyjarfjallajökull, Tindafjallajökull og Vestmannaeyjar. Í húsinu er svefnaðstaða fyrir allt að tvo, en þar er eitt rúm og eitt baðherbergi.
Þetta stílhreina sumarhús er staðsett í miðjum Gullna hringnum á Suðurlandi umvafið fallegu landslagi. Á veggjum og í lofti eru mjúkir litir sem tóna fallega við dekkri innréttingar í eldhúsi. Þá gefur aukin lofthæð sumarhúsinu mikinn glæsibrag.
Sumarhúsið er til útleigu á Airbnb en þar rúmast allt að 13 gestir hverju sinni, en í húsinu eru þrjú svefnherbergi og tvö baðherbergi.
Í grennd við Búðardal á Vesturlandi er að finna fallegt hús sem byggt var árið 2020. Húsið er 100 fm að stærð með fallegu útsýni yfir náttúruna í kring. Græni liturinn er áberandi í húsinu og prýðir bæði veggi og loft. Hann tónar afar vel við húsmuni og innréttingar.
Alls eru tvö svefnherbergi og tvö baðherbergi í húsinu sem er til útleigu á Airbnb. Þar rúmast allt að sex gestir hverju sinni.
Við Arnarstapa er að finna nýuppgert sumarhús með guðdómlegu útsýni. Í húsinu er stór arinn, heitur pottur og einstaklega sjarmerandi verönd. Að innan hefur húsið verið innréttað á stílhreinan máta, en falleg litapalletta býr til notalega stemningu.
Húsið státar af tveimur svefnherbergjum og einu baðherbergi, en það er til útleigu á Airbnb og rúmar allt að fjóra gesti hverju sinni.