Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 var staðfestur á aukafundi borgarstjórnar í dag með fyrirvörum frá Flokki fólksins og Sjálfstæðisflokknum.
Hart var tekist á um rekstrarstöðu í síðari umræðu um ársreikninginn og gagnrýndi minnihlutinn meðal annars að við endurskoðun á ársreikningnum reyndust verðbætur í sjóðstreymi oftaldar um 2.492 milljónir kr. og lántaka vantalin um sömu fjárhæð.
Borgarstjóri sagði breytinguna þó ekki áhrif á niðurstöðu ársreikningsins, en hún hefur þó áhrif á niðurstöðu veltufjár frá rekstri og fjármögnunarhreyfingar í sjóðstreymi.
Í desember voru meira en 100 hagræðingartillögur samþykktar í borgarstjórn ásamt nýrri fjármálastefnu og fjárhagsáætlun til næstu fimm ára 2023-2027.