Tveir í áhöfn skipa Hvals hf. telja að brotið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs þeirra þegar þeir voru myndaðir við störf sín og hafa hafa þeir því stefnt Matvælastofnun (MAST) og Fiskistofu. Krefjast þeir miskabóta vegna málsins.
Í umfjöllun Ríkisútvarpsins kemur fram að myndbandsupptaka hafi verið gerð um borð vegna eftirlits Fiskistofu með hvalveiðum síðasta árs og þekkjast skipverjarnir tveir á myndbandinu. Halda þeir því fram að með upptökunni hafi Fiskistofa brotið gegn persónuverndarlöggjöf sem og friðhelgi einkalífs.
Á síðasta ári setti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra reglugerð sem herti eftirlit með hvalveiðum til að tryggja markmið laga um velferð dýra og fólst í reglugerðinni skylda til að taka upp á myndbönd meðferð þeirra.
Fram kom í tilkynningu frá MAST í gær að við eftirlit með hvalveiðum síðasta árs hafi komið í ljós að fleiri hvalir voru margskotnir og telur stofnunin ástæðu til að kanna hvort veiðarnar geti yfir höfuð samræmst markmiðum laga um velferð dýra.
Í kjölfarið sagði Svandís að tímabært væri að fara að ræða hvort banna ætti hvalveiðar á Íslandi.