Hvalur hf. hefur í vetur þróað og rannsakað tvær nýjar veiðiaðferðir vegna veiða á hvölum. Önnur byggist á notkun gervigreindar til að aðstoða skyttur við að meta fjarlægð hvals. Hin grundvallast á notkun rafmagns til að aflífa hvalinn ef hann drepst ekki við fyrsta skot, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.
Matvælastofnun hefur sagt veiðar síðasta árs ekki samræmast markmiðum laga um dýravelferð, en Hvalur hf. gerði margvíslegar athugasemdir við niðurstöður eftirlitsskýrslu stofnunarinnar. Í athugasemdum sínum vekur fyrirtækið athygli á að verið sé að þróa nýjar veiðiaðferðir sem hafi það að markmiði að gera hvalveiðarnar skilvirkari.
Matvælastofnun fagnar framþróun við veiðar sem gætu stuðlað að betri dýravelferð en bendir á að vandamál geti verið við notkun rafmagns við þessar aðstæður.