Tunnudreifing hafin í Reykjavík

Nú þurfa allir að flokka í fjóra flokka við heimili. …
Nú þurfa allir að flokka í fjóra flokka við heimili. Í nýju flokkunarkerfi er tunnum úthlutað samkvæmt gerð húsnæðis og fjölda íbúa. Meginmarkmiðið er að fjölga tunnum hjá íbúum eins lítið og hægt er. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Tunnu­dreif­ing sam­kvæmt nýju flokk­un­ar­kerfi sorp­hirðu er haf­in í Reykja­vík. Nú stend­ur yfir dreif­ing í Grafar­holti og Úlfarsár­dal. Skylt varð að flokka heim­il­isúr­gang í fjóra flokka við heim­ili með lög­um um hringrás­ar­hag­kerfi, sem tóku gildi í janú­ar 2023.

Reykja­vík­ur­borg tek­ur upp nýtt og sam­ræmt flokk­un­ar­kerfi sorp­hirðu í sam­vinnu við ná­granna­sveit­ar­fé­lög. Þetta er viðamikið um­hverf­is­mál en með réttri flokk­un er hægt að minnka sóun og end­ur­nýta verðmæti í stað þess að þeim sé hent, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá borg­inni. 

Íbúar þurfa ekki að grípa til neinna aðgerða hvað varðar tunnu­skipti. Tunnu­dreif­ing er haf­in og lýk­ur breyt­ing­un­um í sept­em­ber.

Dreif­ingaráætl­un á nýj­um tunn­um eft­ir hverf­um

  • Kjal­ar­nes, Grafar­vog­ur, Grafar­holt og Úlfarsár­dal­ur fá nýj­ar tunn­ur í maí.
  • Árbær og Breiðholt í júní.
  • Háa­leiti og Bú­staðir í júní og júlí.
  • Laug­ar­dal­ur í júlí.
  • Miðborg og Hlíðar í ág­úst.
  • Vest­ur­bær í sept­em­ber.

Tunnu­dreif­ingu á Kjal­ar­nesi er lokið og nú stend­ur yfir dreif­ing í Grafar­holti og Úlfarsár­dal.  Eft­ir það verður haldið í Grafar­vog­inn og svo koll af kolli sam­kvæmt plani.

Öll heim­ili fá jafn­framt körfu og bréf­poka und­ir mat­ar­leif­ar sem dreift er sam­hliða tunnu­skipt­un­um, seg­ir enn frem­ur

mbl.is

Bloggað um frétt­ina