Dreifing á nýjum sorpílátum í Hafnarfirði hefst 22. maí og lýkur 14. júlí. Dreifingin tengist innleiðingu á nýju sorpflokkunarkerfi á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram á heimasíðu Hafnafjarðarbæjar.
Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar kemur til með að dreifa sorpílátunum heim til íbúa í Hafnarfirði. Dreifingaráætlun gerir ráð fyrir að það taki um það bil eina viku að dreifa nýjum ílátum í hverju hverfi, en til stendur að hefja dreifinguna í Hvaleyrarholti mánudaginn 22. maí og ljúka henni á Völlunum 14. júlí.
Þeir íbúar sem eru með símanúmer sitt skráð hjá 1819.is fá send SMS smáskilaboð um afhendinguna.
Um er að ræða eitt nýtt tvískipt ílát við sérbýli og nýtt ílát fyrir matarleifar við fjölbýli. Þá munu öll hafnfirsk heimili fá plastkörfu og bréfpoka undir söfnun matarleifa innan heimila. Íbúar í ósamþykktum íbúðum geta nálgast plastkörfur og bréfpoka í á opnunartíma þjónustumiðstöðvar Hafnafjarðarbæjar.
Dreifingaráætlun í Hafnarfirði
Allar almennar upplýsingar um nýtt fyrirkomulag má finna á www.flokkum.is
Sértækar upplýsingar fyrir Hafnarfjörð (fjöldi tunna, fyrirkomulag og dreifing) má finna á https://hfj.is/nyflokkun