Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst á Íslandi á morgun, en það er aðeins fjórði leiðtogafundur þess í 74 ára sögu. Ísland gegnir formennsku þess nú og er því gestgjafi á fundinum. Tilefnið er innrás Rússa í Úkraínu.
Ekki er víst að öllum sé eðli og umfang Evrópuráðsins fyllilega ljóst og margir rugla því saman við Evrópusambandið (ESB). Sem er kannski ekki skrýtið þegar haft er í huga að ESB tók fána Evrópuráðsins upp sem sinn eigin á sínum tíma, en þetta eru samt sín hvor stofnunin og ólíkar að gerð, því aðildarríki ESB hafa framselt hluta fullveldis síns til ESB, en það á ekki við um Evrópuráðið.
Öll ríki ESB eru í Evrópuráðinu og 20 ríki önnur að auki.
Evrópuráðið (e. Council of Europe) var stofnað 1949, löngu á undan ESB, m.a. fyrir hvatningarorð Winstons Churchills. Stofnríkin voru tíu: Belgía, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Noregur og Svíþjóð.
Ísland gekk í Evrópuráðið ári síðar og næstu ár á eftir gengu velflest ríki Vestur-Evrópu í það. Eftir fall kommúnismans í lok liðinnar aldar bættust nýfrjáls ríki í Mið- og Austur-Evrópu við og síðan hafa nánast öll Evrópuríki gengið í það. Aðildarríkin eru nú 46 en sex önnur með áheyrnarfulltrúa.
Líkt og sjá má á kortinu að ofan eru tvær undantekningar. Rússland, sem gekk í Evrópuráðið 1996, var rekið úr því eftir innrásina í Úkraínu í fyrra, en grunnt hafði verið á því góða allt frá því að Rússar réðust inn í Georgíu 2008 og enn frekar eftir að þeir hernámu Krímskaga 2014. Hvíta-Rússland (Belarús) hefur hins vegar aldrei gengið í Evrópuráðið, en Kósovó er á biðstofunni við andstöðu Serba.
Markmið Evrópuráðsins fyrir utan það að græða sár stríðsins og auka stöðugleika í álfunni var frá öndverðu að treysta mannréttindi, lýðræði og réttarríki í Evrópu. Í því skyni var Mannréttindasáttmáli Evrópu samþykktur 1950 og með honum stofnaður Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE), sem sennilega er sú stofnun ráðsins sem Íslendingar sem aðrir hafa mest fengið fréttir af.
Evrópuráðið átti einnig mikinn þátt í lýðræðisuppbyggingu í fyrrverandi leppríkjum Sovétríkjanna þegar þau öðluðust frelsi, en þar voru velflestar lýðræðisstofnanir í molum og spilling í stjórnkerfinu landlæg.