„Innrás Rússa Í Úkraínu hefur gerbreytt myndinni“

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis ásamt Rúslan Stefantjuk, forseti Úkraínuþings á …
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis ásamt Rúslan Stefantjuk, forseti Úkraínuþings á ráðstefnu evrópskra þingforseta í Prag. Ljósmynd/Alþingi

Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir meiri öryggisógn steðji að okkur hér í Evrópu en við höfum séð um áratuga skeið. Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í Hörpu í dag.

„Innrás Rússa Í Úkraínu hefur gerbreytt myndinni varðandi öryggismál í okkar heimshluta. Ég held að þó ekki væri nema af þeim sökum sé fundur jafn margra Evrópskra leiðtoga og stendur fyrir dyrum gríðarlega mikilvægur.“

Skili gagnlegum niðurstöðum

Birgir segir skipta máli fyrir Ísland að nýta formennsku landsins í Evrópuráðinu um þessar mundir til að taka frumkvæði af þessu tagi. Hann segir Ísland þurfa að vera fullgildur þátttakandi í þeim alþjóðasamtökum sem það tekur þátt í og segir hann því geta fylgt gestgjafaskyldur af þessu tagi.

„Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að standa vel að málum en aðalatriðið er auðvitað það að fundurinn skili gagnlegum niðurstöðum sem skipta máli varðandi stöðu mála í okkar heimshluta,“ segir Birgir.

mbl.is