Fundarstörf á leiðtogafundi Evrópuráðsins hefjast í rauðabítið í dag, enda lítið annað gert í gær en að taka á móti gestunum og setja fundinn.
Hið fyrsta á dagskránni í dag kl. 7.45 er tjónaskrá Evrópuráðsins. Með henni á að halda utan um allt tjón sem Rússar hafa unnið og valdið í Úkraínu.
Skömmu síðar hefst sameiginlegur árbítur leiðtoganna, en kl. 9.00 hefst almenn umræða á fundi leiðtoga ríkjanna 46. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur þar upphafsávarp og stýrir fundi sem ráðgert er að standi í 3½ klukkustund.
Að því loknu fær utanríkisráðherra orðið, enda formennskutíð Íslands í Evrópuráðinu á enda, og réttir kollega sínum í Lettlandi keflið. Að því loknu slítur forsætisráðherra leiðtogafundi um kl. 12.30, en efnt verður til blaðamannafundar kl. 14.30.
Auk þessa sitja ráðherrarnir ótal tvíhliða fundi með leiðtogum ríkja, fulltrúum alþjóðastofnana og sérlegum sendimanni Bandaríkjanna.
Nánari umfjöllun um leiðtogafundinn er að finna í Morgunblaðinu í dag.