Leystist á tveimur mínútum

Lögð á ráðin. Öryggisgæsla í og við Hörpu er gríðarleg …
Lögð á ráðin. Öryggisgæsla í og við Hörpu er gríðarleg vegna leiðtogafundarins sem þegar hefur orðið fyrir einni árás sem tölvuþrjótar gerðu í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta leystist á tveimur mínútum, snerist um að föruneytið var ekki með sömu réttindi og sendiherra,“ segir Gunnar Hörður Garðarsson, samskiptastjóri hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is um það þegar hluta föruneytis sendiherra Finnlands var í stutta stund neitað um að yfirgefa lokaða svæðið í Hörpu í gær til að taka á móti Sauli Niinistö Finnlandsforseta á Reykjavíkurflugvelli.

„Einhverjir voru með aðeins minni réttindi, þar með þurfti að fylgja þeim annars staðar og það gekk mjög hratt fyrir sig, þetta var engin töf til þess að tala um,“ segir samskiptastjórinn enn fremur.

Ekki auðratað

Hópnum hafi svo verið fylgt út úr húsinu og kveður Gunnar Hörður það einfaldlega stafa af þeirri ríkulegu öryggisgæslu sem er í kringum fundinn og þeim reglum sem henni fylgja. Bætir hann því við að Harpan sé mikið völundarhús sem ekki sé auðrataðra um þegar stífar öryggisreglur vegna stórviðburða bætist við.

Segir hann för sjálfs sendiherrans ekki hafa verið stöðvaða en sendiherra eðlilega ekki viljað fara án þess að allur hópurinn væri með.

mbl.is