Óljóst um hvalveiðar á næsta ári

Ekki er víst að hvalur verði skorinn á Íslandi næsta …
Ekki er víst að hvalur verði skorinn á Íslandi næsta sumar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Lög um hval­veiðar eru barn síns tíma. Þau eru á skjön við al­menna góða laga­setn­ingu, þau lög þarf að taka til end­ur­skoðunar.“

Þetta sagði Svandís Svavars­dótt­ir, mat­vælaráðherra, m.a. opn­um fundi at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is þar sem rætt var um vel­ferð hvala við veiðar á dýr­un­um. Hún sagði ákvörðun um heim­ild til hval­veiða á næsta ári hafi ekki verið tekna en nú­ver­andi heim­ild Hvals til veiðanna gildi út þetta ár.

Aft­ur­köll­un veiðileyf­is­ins sé íþyngj­andi stjórn­valdsákvörðun sem þurfi að hafa skýra laga­stoð sem sé ekki til staðar. Til að banna hval­veiðar þurfi Alþingi að taka málið til um­fjöll­un­ar.

Skaðabæt­ur hugs­an­leg­ar

Nokkuð var sótt að mat­vælaráðherra á fund­in­um og var Svandís m.a. spurð að því hvort fram hafi farið mat á mögu­legri bóta­skyldu ís­lenska rík­is­ins ef heim­ild til hval­veiða verður aft­ur­kölluð. Hún sagði það ekki hafa verið gert en í hval­veiðilög­un­um sé kveðið á um önn­ur viður­lög við brot á lög­un­um.

„Svo sem sekt­ir eða fang­elsi ef sak­ir eru mikl­ar eða ef um ít­rekuð brot er að ræða. En ekki um svipt­ingu.“

Í gangi er víðtæk gagna­öfl­un stjórn­valda til að taka ákvörðun um framtíð hval­veiða, m.a. mat á efna­hags­leg­um áhrif­um ef veiðunum verður hætt. Svandís seg­ir að lög um hval­veiðar séu orðin mjög göm­ul og ekki nú­tíma­leg á nokk­urn hátt.

Hval­ir ein­stak­ir í líf­rík­inu

Rætt hef­ur verið um sam­an­b­urð á hval­veiðum og veiðum á öðrum villt­um dýr­um, t.d. á hrein­dýr­um og laxi.

Svandís seg­ir að eng­inn vafi leiki á því á því að unnt sé að stunda veiðar á öðrum dýr­um þar sem mark­miðum laga um vel­ferð dýra sé náð. Varðandi hrein­dýra­veiðar gildi t.d. strang­ar kröf­ur um hlaup­vídd vopna sem eru notuð við veiðarn­ar og leiðsögu­menn verði að vera til staðar til að tryggja að af­líf­un dýr­anna taki sem skemmst­an tíma. „Það er bannað að nota vasa­hnífa eða spjót eða slíkt til að veiða hrein­dýr.“

Mat­vælaráðherra seg­ir hvali ein­stak­ar skepn­ur.

„Hval­ir eru lang­stærstu dýr jarðar og raun­ar stærstu dýr sem hafa nokk­urn tím­ann verið til á jörðinni, það er aug­ljós­lega mun erfiðara að af­lífa þau en önn­ur dýr. Aðstæður á sjó geta verið flókn­ar og það get­ur gert það að verk­um að það er mjög krefj­andi að hæfa dýrið.“

Sig­ur­jón Þórðar­son, þingmaður Flokks fólks­ins sagði í umræðum ekki hægt að halda áfram hval­veiðum að óbreyttu enda þurfi að skjóta fjórðung dýr­anna sem veidd eru oft­ar en einu sinni. Grípa þurfi inn í.

Teit­ur Björn Ein­ars­son, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði þó ljóst að eng­in ákvæði í lög­um um vel­ferð dýra hafi verið brot­in við hval­veiðar og bestu aðferðum sem þekkj­ast sé beitt við veiðarn­ar.

mbl.is