„Almennt séð er þessi ráðgjöf jákvæðar fréttir. Það er góð aukning í ýsu og heil 62% í karfa,“ segir Ólafur Helgi Marteinsson, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og framkvæmdastjóri Ramma hf., um ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar fyrir fiskveiðiárið 2023/2024.
Hann kveðst telja það ekki fara milli mála að um er að ræða ráðgjöf sem hefur í för með sér verulega hækkun útflutningsverðmæta. „Tala nú ekki um þessa 40% aukningu í síld. Ég hef ekki tölu á því en mér finnst blasa við að það verður aukning á útflutningsverðmætum, hún liggur fyrir.“
Ráðgjöf um hámarksafla þorsks hefur minnkað töluvert á undanförnum árum, en eykst nú um 1%. Spurður hvort ráðgjöfin sé staðfesting á að samdráttarskeiðinu sé lokið í bili svarar Ólafur: „Þorskurinn virðist vera í jafnvægi. Ég held að menn hafi séð það í síðustu ráðgjöf að lækkunum var lokið en áttum kannski frekar von á að aukningin yrði fimm prósent en ekki eitt. En þarna virkar aflareglan, það er sveiflujöfnun í henni. Góðu fréttirnar eru að hrygningarstofninn er stór og viðmiðunarstofninn er stór. Við erum á góðum stað með þorskstofninn.“
Hann segir fátt hafa komið á óvart í veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem kynnt var í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Hafnarfirði í morgun, nema gullkarfinn og er lagður til 41.286 tonna hámarksafli fiskveiðiárið 2023/2024. Ekki hefur verið hærri ráðgjöf síðan 2019/2020 og hafði verið stöðug lækkun frá fiskveiðiárinu 2016/2017.
Hafrannsóknastofnun leggur til að enginn djúpkarfi verði veiddur á komandi fiskveiðiári og er talið að stofninn fari ekki upp fyrir varúðarmörk í fyrirsjáanlegri framtíð.
Ólafur segir þessi tíðindi dapurleg þar sem djúpkarfi er óumflýjanlegur meðafli í þó nokkru magni annarra veiða og vísar til grálúðu- og gullaxveiða. „Þarna vantar okkur að búa til eitthvað kerfi sem hjálpar okkur að mæta þessum vanda.“