Auður hættir að drekka og lætur skoða heilann

Auður Jónsdóttir.
Auður Jónsdóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Auður Jónsdóttir rithöfundur hefur ákveðið að láta rannsaka heilann og kerfið eftir áralanga baráttu við flogaveiki. Auður greinir frá þessu í pistli á Facebook og segir að vinir og vandamenn ættu ekki að vera hissa að hún sé allt í einu orðin edrú. 

„Flogaveiki er lífsförunautur sem maður valdi ekki um en venst í ófyrirsjáanleika sínum. Þegar ég var lítil var stundum haldið að ég væri dónaleg, ég svaraði ekki vinum mínum þegar þeir voru í miðju kafi að segja frá einhverju og fór svo bara, allt í einu, að tala um eitthvað allt annað. Það voru störuflog.

Enginn áttaði sig á því að eitthvað væri að, ég þótti bara svolítið sér á parti stundum, og átti líka til að spóla í svo áráttukenndri örvæntingu yfir smámunum að einhverjir héldu að það gæti verið að ég væri með einhverfu.

Ég hafði kannski týnt úrinu mínu og leið eins og ég væri í flugvél að hrapa og sama þó að mér væri lofað nýju úri og enginn að skamma mig, þá komst ég ekki út úr líðan sem var blanda af ofsahræðslu eins og ég væri í flugvél að hrapa og hrjóstrugri sjálfsásökun sem hamraði á mér,“ skrifar Auður. 

Skömmin var djúp

Auður rekur hvernig hún fór í fyrsta sinn á lyf við flogaveiki fjórtán ára gömul. 

„Um svipað leyti byrjaði ég að djamma og vaka á næturna og sextán ára byrja ég að fá stóra grand mal krampa. Fólk sagði mér að ég öskraði þá svo að það líktist engu, og síðan skókst líkaminn í heiftarlegu flogi, ég froðufelldi og pissaði á mig, og þurfti stundum að jafna mig á spítala. Þetta ærði vitið úr mömmu minni því ég gat dottið niður hvar sem var, á Snorrabrautinni eða í stiganum í Mál og menningu. Plús að ég var á endalausum þvælingi og alltaf á puttanum.

Skömmin yfir þessu var svo djúp að það var ekki fyrr en Stóri skjálfti hennar Tinnu, byggður á skáldsögu minni, var orðin að bíómynd fyrir sirka tveimur árum að ég talaði eðlilega um að vera með flogaveiki, kannski því þá fannst mér hún tilheyra fortíðinni, ég hafði ekki fengið kast síðan ég var 25 ára og byrjaði með fyrrverandi manninum mínum,“ skrifar Auður. 

„Núna er ég að hefja vegferð að láta rannsaka heilann og kerfið. Fara í heilalínurit. Tala betur við taugalækni. Og skoða þetta með nýjum gleraugum. Eina sem ég skil ekki er af hverju það blasti ekki við mér fyrr, að þessi virkni heilans er líklega af öðrum toga en skorti á slökunaræfingum.

Kannski því ég er svo vön að lesa greinar um að svona eða hin líðanin eigi að fylgja hinu eða þess; áföllum, skilnaði, breytingaskeiðinu, vinnuálagi, flutningum o.s.frv.
Og kona verður samdauna sjálfri sér.

Svo ekki verða hissa að ég sé allt í einu edrú alla daga í hinum ýmsu uppbyggjandi athöfnum, ég þarf loksins að sættast við heilann í mér og sýna honum þá virðingu sem hann á skilið. Enda er lífið svo frábært að heilinn á skilið að njóta þess. Og sætta sig við að vera með flogaveiki,“ skrifar Auður að lokum.

mbl.is