Með „veðursamviskubit“ fyrir austan

Skriðuklaustur í morgun.
Skriðuklaustur í morgun. Ljósmynd/Gunnarsstofnun

Veður­blíðan hef­ur verið mik­il fyr­ir aust­an í dag, rétt eins og und­an­farn­ar vik­ur, og hef­ur hæsti hit­inn mælst 23,4 stig það sem af er degi á Hall­ormsstað.

Skriðuk­laust­ur er í Fljóts­dal í ná­grenni við Hall­ormsstað og þar sit­ur Skúli Björn Gunn­ars­son, for­stöðumaður Gunn­ars­stofn­un­ar, fyr­ir svör­um.

„Næst­um því að verða ólíft“

„Það er allt farið að verða dá­lítið þurrt hér í nátt­úr­unni. Það eru held­ur fáir rign­ing­ar­drop­ar sem við fáum, þannig að gróður var kom­inn hér strax um síðustu mánaðamót miklu lengra en vana­lega,“ seg­ir Skúli Björn.

Skúli Björn Gunnarsson.
Skúli Björn Gunn­ars­son.

Hann bæt­ir við að fleiri ferðamenn sjá­ist á svæðinu en venju­lega, þar á meðal Íslend­ing­ar sem gista á tjaldsvæðum og í sum­ar­hús­um. „Það þyng­ist bara straum­ur­inn með hverj­um deg­in­um sem líður.“

Eruð þið far­in að þrá meiri rign­ingu?

„Þetta er svo­lítið ein­hæft, eins og er hérna núna. Það er næst­um því að verða ólíft og komið vel yfir 20 gráðurn­ar. Það er senni­lega farið að nálg­ast 30 gráðurn­ar og glamp­andi sól og heiðskírt,“ svar­ar Skúli Björn og nefn­ir að stund­um sé hlýrra á Skriðuk­laustri en í Hall­ormsstað.

Nóg af sól­ar­vörn

„Það er viss­ara að bera á sig sól­ar­vörn áður en menn fara héðan út. Það er staðal­búnaður hjá starfs­mönn­um eins og er,“ bæt­ir hann við, spurður hvort best sé að halda sig inni við.

„Það er búið að vera svona gott síðustu vik­ur á meðan það hef­ur verið skítviðri syðra. Maður er að verða kom­inn með veður­sam­visku­bit gagn­vart íbú­um höfuðborg­ar­svæðis­ins,“ seg­ir hann og hlær.

Sta­f­ræn leiðsögn

Spurður seg­ir Skúli Björn aðsókn­ina í Skriðuk­laust­ur það sem af er sumri vera meiri en í fyrra. Þar gæti haft eitt­hvað að segja ný miðlun varðandi rit­höf­und­inn Gunn­ar Gunn­ars­son og verk hans þar sem gest­ir geta stuðst við sta­f­ræna leiðsögn í gegn­um sím­ann.

Hann seg­ir fjölda gesta vera mis­jafn­an frá degi til dags og fer hann mikið til eft­ir því hversu marg­ar rút­ur og skemmti­ferðaskip eru á ferðinni. Get­ur hann farið upp í nokk­ur hundruð manns á degi hverj­um.

mbl.is