Fjöllistakonan og hæfileikabúntið, Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir, hefur afrekað ýmislegt á sínum 19 árum. Hún er útskrifuð af leiklistarbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ, lauk framhaldsprófi í klassískum söng í maí og er ein þeirra er standa að skipulagningu listahátíðar í Garðabæ.
Sumarið verður bjart og líflegt hjá þessari ungu og skapandi sál en hún heldur til Barcelona til þess að vera viðstödd brúðkaup hjá vinafólki sínu. „Ég verð þar í tíu daga og ferðast ein. Mig hefur alltaf langað að prófa að vera ein í útlöndum. Ég er smá stressuð fyrir ferðinni en sömuleiðis sjúklega spennt,“ segir Tinna Margrét. „Ég ætla að nýta tækifærið og skoða Barcelona og upplifa nýja hluti.“
Tinna Margrét ætlar einnig að fagna ástinni á Íslandi í sumar en móðir hennar og stjúpfaðir ætla einnig að gifta sig í sumar. „Seinna í sumar verður brúðkaup hjá mömmu og stjúppabba. Það verður algjört æði og við erum á fullu að gera allt klárt fyrir það,“ segir Tinna Margrét spennt.
Leik– og söngkonan mun hafa í nógu að snúast í sumar. „Ég verð í tveimur vinnum í sumar. Ég verð sölufulltrúi hjá Artasan og einnig skipuleggjandi listahátíðarinnar Rökkvan, en það er í gegnum Skapandi sumarstörf hjá Garðabæ.
Svo langar mig bara að njóta mín og upplifa allt það sem sumarið hefur upp á að bjóða. Þetta er svona allt sem ég veit en ég virðist alltaf finna mér ný og skapandi verkefni,“ segir Tinna Margrét að lokum.