Hollywood-leikarinn Mark Ruffalo birti færslu á samfélagsmiðlinum Instagram um helgina þar sem hann fór fögrum orðum um eiginkonu sína, Sunrise Coigney í tilefni af 23 ára brúðkaupsafmæli parsins.
„Til hamingju með 23 ár, vinkona mín, maki og elskhugi. Allt það sem er fallegt í lífi okkar kemur frá þér. Þú ert líka sú sem heldur öllu gangandi. Ég dáist að þér og ég elska þig,“ skrifaði Ruffalo við færsluna sem sýnir mynd af hjónunum á brúðkaupsdaginn árið 2000.
Ruffalo og Coigney, sem eru bæði 50 ára, kynntust árið 1998 í Los Angeles og giftu sig tveimur árum síðar. Í viðtali við Men's Journal frá árinu 2017 sagði leikarinn þetta hafa verið ást við fyrstu sýn. „Ég sá hana og sagði: Ég er að fara að giftast henni.“
Hjónin eiga saman þrjú börn, soninn Keen, 21 árs og dæturnar Bella Noche, 17 ára og Odette, 15 ára.