Öfgakennt veðurfar í Evrópu hefur orðið 195.000 manns að bana frá árinu 1980, auk þess að valda miklu efnahagslegu tjóni, eða því sem nemur 560 milljörðum evra. Þetta kemur fram í skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu, EEA.
Flest banaslysa á árunum 1980-2021 urðu af völdum flóða, storma, hita- og kuldabylgna, skógarelda og aurskriða að því er fram kemur í skýrslu EEA. Af 560 milljarða evra tjóninu var einungis 30 prósent fjármagnsins tryggt.
„Til að koma í veg fyrir frekara tjón þurfum við að hætta að bregðast við öfgakenndu veðurfari þegar það brestur á og byrja að undirbúa okkur betur undir það,“ segir Aleksandra Kazmierczak sérfræðingingur EEA.
Hitabylgjur voru valdur af 81 prósent dauðsfalla og ástæða 15 prósent af fjárhagslegu tapi. Í skýrslunni segir mikilvægt að gripið verði til aðgerða í Evrópu til þess að vernda aldraða íbúa þar sem þeir séu viðkvæmastir fyrir miklum hita.
Sumarið 2022 létust fleiri í Evrópu en á meðalári vegna endurtekinna hitabylgja. Dauðsföllin eru þó ekki hluti af tölu látinna í skýrslu EEA, enda nær hún einungis til áranna 1980-2021.
Þar af voru í júlí 2022, 16 prósent fleiri dauðsföll en í sama mánuði árin 2016-2019. Dauðsföll júlí mánaðar 2016-2019 eru þó ekki öll rakin til hita. Loftlagslíkön hafa spáð lengri, ákafari og tíðari hitabylgjum og því ekki útlit fyrir að lát verði á dauðsföllum nema gripið verði til aðgerða.
Í febrúar 2022 greindi EEA frá því að ofsaveður hefðu orðið 142.000 manns að bana og ollið fjárhagstjóni sem nemur 510 milljörðum á árunum 1980-2020. Skýringin á auknu fjárhagstjóni er vegna flóða í Þýskalandi og Belgíu árið 2021 sem ollu 50 milljarða króna fjárhagstjóni. Breytt aðferðarfræði í Þýskalandi og Frakklandi er ástæða þess hversu mikið tala látinnar hækkar.
Skógareldar hertóku tvöfalt stærra landsvæði árið 2022 heldur en undanfarin ár samkvæmt EEA, en loftslagsbreytingar af völdum manna fimm- til sexfölduðu hættuna á þurrkum.
Þurrkarnir gætu orðið kostnaðarsamir. Efnahagslegt tap gæti aukist úr níu milljarða evra á ári í 25 milljarða evra í lok aldarinnar ef hitastig á jörðinni hækkar um 1,5°c. Ef hitastig hækkar um 2°c gæti talan farið upp í 31 milljarð evra og 45 milljarð evra ef hitastig jarðar hækkar um 3°c samkvæmt vísindalegum niðurstöðum.