Skoða opnun rannsóknarstöðvar á Íslandi

Carbon to Sea Initiative við rannsóknir út af Kanaríeyjum. Leitað …
Carbon to Sea Initiative við rannsóknir út af Kanaríeyjum. Leitað er að staðsetningu fyrir rannsóknarstöð á Íslandi. Ljósmynd/Transition Labs

Íslenska lofts­lags­fyr­ir­tækið Transiti­on Labs hef­ur gert sam­komu­lag við Car­bon to Sea Initiati­ve um að skoða kosti þess að setja upp rann­sókn­ar­stöð á Íslandi til að prófa nýja aðferð við föng­un og bind­ingu kol­efn­is úr and­rúms­loft­inu, að því er fram kem­ur í frétta­til­kynn­ingu.

Þar seg­ir að meðal bak­hjarla verk­efn­ins er sjóður stofnaður af fyrr­ver­andi tækn­i­stjóra Face­book og að verk­efnið hef­ur þegar fengið jafn­v­irði um 7 millj­arða í styrki, en Car­bon to Sea Initiati­ve er alþjóðlegt rann­sókn­ar- og þró­un­ar­verk­efni sem er kostað af nokkr­um stór­um alþjóðleg­um styrkt­ar­sjóðum.

Teymi Carbon to Sea Initiative leitar leiða til að binda …
Teymi Car­bon to Sea Initiati­ve leit­ar leiða til að binda kol­efni og þannig minnka magn þess í and­rúms­loft­inu. Ljós­mynd/​Transiti­on Labs

„Aðferðin sem ætl­un­in er að rann­saka kall­ast OAE (Oce­an Alkalinity En­hancement) og snýst um að magna upp nátt­úru­legt veðrun­ar­ferli sem á sér stað þegar basískt berg berst með ferskvatni í hafið og set­ur af stað efna­hvörf sem fanga kolt­ví­sýr­ing (CO2) úr and­rúms­loft­inu. Aðferðin mun umbreyta kolt­ví­sýr­ingn­um og geyma á ör­ugg­an hátt í efna­sam­setn­ingu hafs­ins. Þetta nátt­úru­lega veðrun­ar­ferli er ástæðan fyr­ir því að hafið er nú þegar lang­stærsti kol­efn­is­geym­ir ver­ald­ar en vís­inda­fólk tel­ur hægt að virkja hafið mun meira í bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um og er OAE-ferlið ein mögu­leg leið sem er til skoðunar,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„Einnig er lík­legt að OAE-ferlið hafi já­kvæð staðbund­in áhrif sem vinna á móti súrn­un sjáv­ar. Hins veg­ar er mörg­um spurn­ing­um enn ósvarað áður en hægt er að beita aðferðinni á stór­um skala og þar kem­ur rann­sókn­ar- og þró­un­ar­verk­efnið á Íslandi til sög­unn­ar.“

Auk­in þekk­ing á Íslands­miðum

Gert er ráð fyr­ir að rann­sókn­ir á fyrr­nefndu OAE-ferli skili einnig auk­inni þekk­ingu á haf­inu um­hverf­is Ísland.

„Rann­sókna­stöðin á Íslandi yrði mik­il­væg­ur hlekk­ur í keðju rann­sókna­stöðva í Norður-Atlants­haf­inu þar sem vís­inda­fólk gæti fram­kvæmt vett­vangs­rann­sókn­ir og skorið úr um hvort OAE sé skil­virk, ör­ugg og var­an­leg leið til að fjar­lægja kolt­ví­sýr­ing úr and­rúms­loft­inu. Lík­legt er að slík­ar rann­sókn­ir myndu auka þekk­ing­una á haf­inu um­hverf­is Íslands um­tals­vert, sér­stak­lega á strandsvæðum og í fjörðum,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

Þá hef­ur Transiti­on Labs unnið und­ir­bún­ings­vinnu og ít­ar­lega staðar­vals­grein­ingu til að finna þá staði á Íslandi sem gætu hentað rann­sókn­un­um best, en næstu skref eru sam­töl við nærsam­fé­lög og hags­munaaðila til að kanna áhuga að fá slíka rann­sókna­stöð í nærum­hverfi sitt.

Tæki­færi fyr­ir Ísland og heim­inn

„Ísland á mikið und­ir því að hafið sé við góða heilsu. Car­bon to Sea Initiati­ve rann­sókn­ar­verk­efnið hef­ur styrkt hóp af fremsta haf­vís­inda­fólki heims til þess að kom­ast að því hvort OAE sé ein af þeim lausn­um sem við þurf­um til að koma í veg fyr­ir verstu af­leiðing­ar lofts­lags­breyt­inga af manna­völd­um. Við telj­um að það séu mik­il tæki­færi í því fyr­ir Ísland að taka þátt í þess­um rann­sókn­um, bæði vegna þekk­ing­ar­inn­ar sem mun mynd­ast á ís­lensk­um strand­sjáv­ar­kerf­um við rann­sókn­irn­ar en einnig vegna tæki­fær­is­ins sem felst í því að vera í fram­línu tækniþró­un­ar á sviði lofts­lags­lausna,“ seg­ir Jó­hann Þor­vald­ur Bergþórs­son, verk­efna­stjóri hjá Transiti­on Labs.

Jóhann Þorvaldur Bergþórsson, verkefnastjóri hjá Transition Labs, (með hljóðneman) á …
Jó­hann Þor­vald­ur Bergþórs­son, verk­efna­stjóri hjá Transiti­on Labs, (með hljóðnem­an) á málþingi. Ljós­mynd/​Transiti­on Labs

„Til að vinna gegn hlýn­un jarðar þá þurf­um við að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda og auk þess fjar­lægja gíf­ur­legt magn af kol­efni úr and­rúms­loft­inu. Sú aðferð sem nefn­ist OAE lof­ar mjög góðu en ýms­um spurn­ing­um er enn ósvarað. Það er frá­bært að taka þátt í því að skapa for­send­ur þess að hægt sé að rann­saka aðferðina í þaula svo hægt sé að taka upp­lýsta ákvörðun um hvort rétt sé að beita henni á stór­um skala,“ seg­ir Davíð Helga­son, stofn­andi Transiti­on Labs.

mbl.is