Vatnssóun getur varðað sekt

Vatnsból hafa mörg hver minnkað til muna vegna viðvarandi þurrks.
Vatnsból hafa mörg hver minnkað til muna vegna viðvarandi þurrks. AFP

Millj­ón­um íbúa víðs veg­ar um Suður-Bret­land verður bannað að nota garðslöng­ur, þar sem hita­bylgja á eft­ir að valda mik­illi eft­ir­spurn á drykkjar­vatni, að sögn breskra yf­ir­valda. Virði fólk ekki bannið get­ur það átt yfir höfði sér sekt upp á þúsund pund, eða tæp­lega 180 þúsund ís­lensk­ar krón­ur. 

Um er að ræða tíma­bundið bann fyr­ir íbúa suður­hluta Kent og Sus­sex, en bannið tek­ur gildi þann 26. júní þar sem veður­fræðing­ar spá lít­illi úr­komu í sum­ar. Garðslöngu­bann, sem er tíma­bundið notk­un­ar­bann, er notað af vatns­veit­um til að stjórna vatns­birgðum á tím­um mik­ill­ar eft­ir­spurn­ar og lít­ils fram­boðs. 

Biðla til viðskipta­vina að nota vatnið ein­göngu til nauðsyn­legra nota

Fyr­ir­tækið South East Water grein­ir frá því að eft­ir­spurn í júní hafi slegið öll met, þó svo að fyr­ir­tækið hafi út­vegað 120 millj­ón lítra af vatni til viðbót­ar á dag. „Ástandið hef­ur þró­ast mun hraðar en í fyrra,“ seg­ir fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins, Dav­id Hint­on.  

„Þrátt fyr­ir að biðja viðskipta­vini um að nota vatn ein­göngu til nauðsyn­legra nota, þá höf­um við því miður ekki átt neinn ann­an kost en að inn­leiða þetta tíma­bundna bann til þess að vernda vatnsbirgðir íbúa Kent og Sus­sex“, bæt­ir hann við.  

Eft­ir­spurn meiri en fram­boð

Sout­hern Water gaf einnig út viðvör­un í gær þar sem greint var frá því að eft­ir­spurn væri mun meiri en fram­boð, en víðs veg­ar um landið eru lón þegar far­in að minnka vegna langvar­andi þurrkatíðar.  

Sein­asta sum­ar var það heit­asta sem sög­ur fara af, jafnt sumr­inu 2018, sam­kvæmt veður­stofu Bret­lands, en hiti fór yfir 40 gráður á nokkr­um stöðum.

Þarf frek­ari aðgerðir til að vernda vatns­birgðir

Í Skotlandi er ástandið með svipuðum hætti en skoska um­hverf­is­vernd­ar­stofn­un­in (SEPA) hef­ur gefið út vatns­skortsviðvar­an­ir vegna hættu á gríðarleg­um skorti á vatni í lok mánaðar­ins.

„Árnar okk­ar og lón­in eru und­ir gríðarlegu álagi og það er ljóst að frek­ari aðgerðir þarf til þess að vernda þau“, sagði yf­ir­maður vatns­áætl­un­ar SEPA, Nath­an Critchlow-Watt­on.

mbl.is