Stefán Vagn Stefánsson, formaður atvinnuveganefndar, telur ríkisstjórnarsamstarfið ekki vera í hættu vegna hvalveiðibanns matvælaráðherra sem var opinberað í dag.
Stefán Vagn tekur undir orð formanns síns, Sigurðar Inga Jóhannssonar, að vitað var að tekist yrði á um ýmis mál í stjórn sem þessari, sem skipuð væri svo ólíkum flokkum.
Sjálfur sagðist Stefán Vagn hafa heyrt af banninu í fjölmiðlum í gær og það hafi ekki verið borið undir atvinnuveganefnd. Nefndarmenn hafa í framhaldi óskað eftir fundi með ráðherra til þess að skilja hvaða ástæður liggja þar að baki.
Hann segist ætla að heyra í ráðherra í dag til að festa fundartíma. Óskað hefur verið eftir að fundurinn verði opinn.
Stefán Vagn segist í engri stöðu til að meta skaðabótaskyldu vegna málsins, til þess skorti hann þekkingu, en segir þó: „Ef Hvalur hf. og starfsmenn þess telja að svo sé þá munu þeir leita réttar síns fyrir dómstólum og þá mun það koma í ljós hvernig það liggur. Ég hef ekki forsendur til að meta það sjálfur.“