Krefjast þess að ráðherra endurskoði ákvörðun sína

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra var á fundinum á Akranesi í kvöld.
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra var á fundinum á Akranesi í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Þing­menn Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks krefjast þess að Svandís Svavars­dótt­ir mat­vælaráðherra end­ur­skoði ákvörðun sína um að fresta hval­veiðum út ág­úst. 

Þing­menn tjáðu sig á hita­fundi á Akra­nesi í kvöld en Verka­lýðsfé­lag Akra­ness bauð til op­ins fund­ar í Gamla kaup­fé­lag­inu. 

Mat­vælaráðherra komst vart að þegar talaði í pontu og svaraði spurn­ing­um fund­ar­gesta. Á meðal gesta voru starfs­menn Hvals­hf. en Vil­hjálm­ur Birg­is­son, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, hef­ur sagt að ákvörðun ráðherra hafi í för með sér gríðarlegt tekjutap fyr­ir starfs­menn fyr­ir­tæk­is­ins. 

Þétt var setið í Gamla kaupfélaginu í kvöld.
Þétt var setið í Gamla kaup­fé­lag­inu í kvöld. mbl.is/Á​rni Sæ­berg

„Ekki skoðun, held­ur staðreynd“

Á fund­in­um sagði hann tapið nema 1,2 millj­örðum króna í launa­kostnað fyr­ir starfs­menn og þar fyr­ir utan séu launa­tengd gjöld. Þá benti hann einnig á, líkt og kom fram í yf­ir­lýs­ingu frá sveit­ar­stjórn Akra­ness í gær, að sveit­ar­fé­lagið yrði af mikl­um út­svar­s­tekj­um ef ráðherra end­ur­skoðaði ekki ákvörðun sína. 

Svandís varði ákvörðun sína á fundi sín­um og sagði hana vera tekna á grund­velli niður­stöðu fagráðs um vel­ferð dýra. Það væri skýrt í niður­stöðu þess að hval­veiðar, líkt og þær eru stundaðar nú, sam­ræm­ist ekki lög­um um vel­ferð dýra. Sagði hún það ekki vera skoðun held­ur staðreynd.

Hún ít­rekaði að ákvörðun henn­ar beind­ist ekki að starfs­mönn­um Hvals hf.

Ákvörðun mat­vælaráðherra verður til umræðu á fundi at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is á morg­un klukk­an ell­efu. Fund­ur­inn verður op­inn og sit­ur ráðherra fyr­ir svör­um.

mbl.is