Fótboltakappinn Christiano Ronaldo spókar sig nú um í sólinni á Ítalíu ásamt kærustu sinni, Georginu Rodríguez. Nýtur parið lífsins á glæsilegri snekkju við strendur Sardiníu, ásamt börnunum sínum fimm.
Ronaldo deildi nýlega sjóðheitri mynd af þeim tveimur á Instagram-síðu sinni og virðist ítalska sólin ekki valda fótboltakappanum eins miklum áhyggjum og íslenska kvöldsólin átti víst að hafa gert. Parið býr nú í Sádí-Arabíu, þar sem Ronaldo spilar með fótboltaliðinu Al Nassr. Fengu þau undanþágu frá lögum í landinu sem banna ógiftum pörum að búa saman eftir að Ronaldo skrifaði undir 175 milljón punda samning við sádi-arabíska fótboltaliðið.
Ronaldo hefur líklega lagt glaður af stað í fríið eftir að hafa rétt náð að pota inn sigurmarki Portúgals á móti Íslandi á lokamínútum á Laugardalsvelli, 20. júní síðastliðinn.