Fullt traust á fjármálakerfinu á Íslandi

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits …
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabankans, og Gunnar Þór Pétursson, nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabankans. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, telur að ástæða sé til þess að hafa enn fullt traust á fjármálakerfinu á Íslandi þrátt fyrir atvikalýsingu í sátt Íslandsbanka.

Þetta er meðal þess sem fram hefur komið á fundi efnahags- og viðskiptaefndar Alþingis sem nú stendur yfir. Tilefni fundarins er brot Íslandsbanka við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum.

Engar vísbendingar um neitt sambærilegt

Við upphaf fundarins minntist Gunnar á að skoðun fjármálaeftirlitsins hefði snúið að afmörkuðum þætti í starfsemi Íslandsbanka, það er fjárfestingastarfsemi. Sá hluti starfseminnar væri tiltölulega lítill hluti af starfsemi Íslandsbanka.

Það hefði verið í umræðunni að fjármálakerfið í heild væri undir og jafnvel ýjað að þvi að sama staða væri uppi í annarri starfsemi innan fjármálageirans.

Sagði hann engar vísbendingar vera um neitt sambærilegt innan stóru viðskiptabankanna þriggja í landinu. Enn væri tilefni til að hafa fullt traust á fjármálakerfinu á Íslandi þrátt fyrir þau atriði sem lýst er í sáttinni.

Líkt og fram hefur komið hefur Íslandsbanki fallist á að greiða 1, 2 milljarð króna í sekt vegna málsins.

Meðal brota sem lýst er í sátt Íslandsbanka og fjármálaeftirlits Seðlabankans eru að Íslandsbanki hljóðritaði ekki símtöl, veitti viðskiptavinum rangar upplýsingar um skilmála útboðsins og fylgdi ekki skilyrðum laga við mat á umsóknum viðskiptavina um að teljast fagfjárfestar.

mbl.is