„Hann er mjög ánægður með þessa niðurstöðu“

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri …
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríksins, sátu fyrir svörum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lárus Blöndal, stjórn­ar­formaður Banka­sýslu rík­is­ins, segir að skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabankans (FME) setji vissulega svip sinn á útboðið á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka á síðasta ári. Hann ætli þó að leyfa forstjóra Bankasýslu ríkisins að státa sig af „farsælasta útboði Íslandssögunnar“.

„Það sem hann á við er fjárhagslega niðurstöðu útboðsins. Hann er mjög ánægður með þessa niðurstöðu og ég leyfi honum bara að vera það. Hins vegar setur þessi skýrsla og niðurstaða FME svip sinn á þetta. Við hefðum ekki viljað fá þessa niðurstöðu þó hún beinist ekki gegn okkur,“ segir Lárus í samtali við mbl.is. Lárus og Jón Gunnar voru gestir á fundi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í dag þar sem skýrsla FME var til umræðu. 

Lárus segir að það sé til skoðunar að fara fram á kjör stjórnarmanna á hluthafafundi í júlí.

Spurður hvort stjórnarmönnum sem voru í stjórn Íslandsbanka þegar útboðið var sé stætt segir Lárus:

„Það er matsatriði. Það skiptir máli hvernig stjórnendur og stjórn bankans horfa á það. Þetta er þannig mál að hafa samstarf við aðra eigendur og hvað þeim líst á í þessum efnum. Við munum skoða það í framhaldinu.“

Skiptir máli að hafa bankastjóra

Hann segir matsatriði með Finn Árnason, stjórnarformann Íslandsbanka, hann hafi varla geta sett mark sitt á útboðið þar sem hann kom inn í stjórnina fimm dögum áður. 

Hvað með ráðningu nýs bankastjóra á þessum tímapunkti. Finnst þér eðlilegt að það sé gert með þessum hætti?

„Það er ljóst að hvort sem ráðinn hefði verið staðgengill, eða bara í þessa stöðu, þá skiptir máli að það sé einhver sem gegnir þessari stöðu. Ég ætla ekki að leggja mat mitt á hvort það hefði verið réttara að ganga eitthvað skemur í þessu. Það skiptir bara máli að það sé aðili sem gegnir þessari stöðu innan bankans.“

Það er mat FME að bankinn hafi látið bankasýsluna fá villandi gögn. Áttuðu þið ykkur á því að þið hefðuð fengið villandi gögn?

„Nei. Eins og ég sagði á fundinum áðan, það sem maður les í sáttinni sem leiðir til niðurstöðunnar. Það voru upplýsingar sem lágu fyrir sem þeir létu okkur ekki vita af. Ég hef ekki forsendur til að rengja þessa niðurstöðu FME. Við upplifðum þetta sem gott samstarf og ef eitthvað hefur gerst sem við vissum ekki af þá er er ekkert skrítið að maður hafi ekki haft þá upplifun á þeim tíma.“ 

mbl.is