Seðlabankinn tjáir sig ekki um það hvenær rannsókn á öðrum söluaðilum í söluútboði Íslandsbanka lýkur.
Eins og fram hefur komið kom út skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabanka um vinnubrögð Íslandsbanka við sölu á 22,5% hlut í bankanum. Gerð var sátt upp á 1.160 milljónir króna við Íslandsbanka.
„Líkt og fram hefur komið hefur fjármálaeftirlitið til skoðunar fleiri söluaðila. Þær athuganir eru enn í gangi. Fjármálaeftirlitið getur ekki tjáð sig um þær á meðan á athugun stendur,“ segir í skriflegu svari frá Stefáni Jóhanni Stefánssyni upplýsingafulltrúa Seðlabankans.
Í skýrslunni var meðal annars gagnrýnd flokkun fagfjárfesta, kaup starfsmanna bankans í útboðinu og að einungis hluti símtala hefði verið til á upptöku.
Citigroup, fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka og J.P. Morgan höfðu umsjón með viðskiptunum. HSBC Continental Europe og Fossar markaðir, höfðu aðkomu að viðskiptunum sem söluráðgjafar. Þá störfuðu ACRO verðbréf, Íslensk verðbréf, og Landsbankinn sem söluaðilar í útboðinu.
Þegar hefur komið fram á Vísi að ÍV eignastýring sem er í eigu ÍV keypti bréf fyrir um 130 milljónir kr. og að Þorbjörg Stefánsdóttir, sem á helmingshlut í fyrirtækinu, keypti hluti fyrir 22,5 milljónir í gegnum félag sitt. Þá hafi einn söluráðgjafa ÍV keypt hlut fyrir milljón krónur í bankanum.
Eins sagði Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa í samtali við mbl.is að fyrirtækið og starfsmenn þess hefðu ekki tekið þátt í útboðinu.