Vonbrigði að ekki var farið að lögum

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, og Lárus Blöndal, stjórnarformaður …
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, og Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins, segir það mikil vonbrigði að ekki hafi verið farið að lögum við sölumeðferð á eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Um alvarlegt mál væri að ræða miðað við niðurstöðu fjármálaeftirlits Seðlabankans.

Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Lárusar á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem nú stendur yfir.

Hann sagðist telja að með starfslokum bankastjóra Íslandsbanka hefðu verið stigin skref til að koma til móts við þá gagnrýni sem bankinn hefur fengið.

Þetta er ekki vandamál okkar

Kristrún Frostadóttir spurði hvaða vinna hefði verið unnin hjá Bankasýslunni til að tryggja að ferlið stæðist lög bæði í undirbúningi og framkvæmdinni.

Vísaði hún í því samhengi til ummæla varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlitsins að ekki væri að sjá af gögnum málsins að Bankasýslan hefði verið upplýst um að almennir fjárfestar hefðu tekið þátt í útboðinu.

Lárus svaraði þá að um mjög góðan undirbúning hefði verið að ræða.

„Við erum með niðurstöðu sem að stórum hluta fjallar um flokkun þessara fjárfesta. Vegna þess að þetta er skilyrði í útboðinu að það megi ekki selja öðrum en þeim sem eru fagfjárfestar þá er tekið svona hart á þessu. Við þurfum ekkert að ítreka neitt eða spyrja „eru þetta örugglega fagfjárfestar“.

Reglan er bara þessi og bankanum ber að fara eftir henni og þar sem hann hefur ekki gert það þá endar það með þessari sátt. Þetta er ekki vandamál okkar, þetta er vandamál þess sem framkvæmdi,“ sagði Lárus.

mbl.is