Íslenska fyrirtækið Carbon Par hefur undanfarið gert kolefnismælingar á golfvellinum Le Golf National í nágrenni Parísar, höfuðborgar Frakklands, þar sem spilað verður á Ólympíuleikunum á næsta ári. Einnig var spilað á vellinum í Ryder-keppninni frægu árið 2018.
„Það væri mjög gaman fyrir okkur og golfhreyfinguna ef hægt væri að tala um að mögulega væri þetta fyrsti keppnisvettvangur ólympíugreinar þar sem búið er að mæla hvert kolefnisfótsporið er,“ segir Edwin Roald Rögnvaldsson golfvallahönnuður sem setti fyrirtækið á laggirnar árið 2019.
Spurður segir hann samstarfið við völlinn vera mikinn heiður fyrir fyrirtækið. „Það er mjög þýðingarmikið, ekki bara fyrir okkar framgang heldur ekki síður og jafnvel miklu fremur, að vekja golfheiminn til vitundar um þessi mál,“ segir Edwin Roald.
Hann vonar að hægt verði að tengja verkefnið „kröftuglega“ við Ólympíuleikana í því skyni að vekja aukna athygli á tengslum golfvalla og loftslagsmála. Verkefninu lýkur í haust og verður skýrsla gefin út í kjölfarið.
Á vefsíðu Carbon Par kemur fram að fyrirtækið mæli kolefni fyrir landeigendur. „Mælingarnar, sem gerðar eru fyrir og eftir tilteknar aðgerðir til að bregðast við loftslagsvánni, eru forsenda þess að sanna megi árangur þeirra, t.d. samdrátt í losun með endurheimt votlendis eða kolefnisbindingu með skógrækt,“ segir á síðunni.
„Golfvellir hafa reynst okkur lærdómsríkir, enda eru landgerðir þeirra nær óendanlega fjölbreyttar. Tækni og aðferðir, m.a. við söfnun og greiningu jarðvegssýna sem Carbon Par hefur þróað á golfvöllum, má nú yfirfæra hvert á land sem er,“ segir þar einnig.
Carbon Par varð til út frá rannsóknarverkefni sem Edwin setti upp í samstarfi við Landbúnaðarháskólann árið 2019. Verkefnið naut fjárhagslegs stuðnings frá bæði erlendum og innlendum aðilum, þar á meðal Golfsambands Íslands Knattspyrnusambands Íslands og KPMG. „Það kom fljótlega í ljós við ákveðna undirbúningsvinnu að slegið gras getur bundið kolefni og við ákveðnar aðstæður getur það bundið meira kolefni en óslegið graslendi. Þetta fannst mér mjög áhugavert,“ greinir Edwin frá, en á hinn bóginn geta framræstar mýrar losað koldíoxíð og aðrar gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið.
Hann ákvað í framhaldinu að hefja vinnu við að meta kolefnisstöðu landsins sem allir golfvellir innan Golfsambands Íslands nota, sem eru um 60 talsins. Niðurstaðan verður líklega kynnt á ársþingi sambandsins í nóvember.
Upp frá þessu kviknaði áhugi á meðal golfvalla í Skotlandi og Frakklandi sem vildu láta gera samskonar mælingar. Umhverfisrannsóknarsjóður á vegum golfsambands Frakklands leitaði í kjölfarið til Edwins vegna Le Golf National.
Carbon Par er nýbyrjað að bjóða erlendum golfvöllum ráðgjöf um hvernig þeir geta dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda og aukið bindingu kolefnis. Um sprotastarf er að ræða, að sögn Edwins, sem tekur fram að starfsmenn fyrirtækisins fljúgi aldrei á golfvellina, enda um loftslagsverkefni að ræða. Þess í stað eru notaðir innlendir og erlendir undirverktakar, m.a. til að taka sýni. Rannsóknarstofur greina síðan sýnin. Einnig er notast við gögn úr gervitunglamyndum og frá drónum.
Blaðamaður nefnir við Edwin þann fjölda fólks sem flýgur á milli landa til að spila golf og ekur einnig langar vegalendir innanlands í sama skyni, sem býr að vonum til slæmt kolefnisfótspor. Edwin er vel meðvitaður um þetta og segir að horfa beri á niðurstöðu verkefnis Carbon Par um kolefnisbindingu út frá landnýtingu í stærra samhengi. Reikna þurfi með losun frá aðföngum sem notuð eru og ferðamáta viðskiptavina.
„Golfvöllurinn væri ekki til ef ekki er gert ráð fyrir að fólk kæmi á hann. Það er óhjákvæmilegur fylgifiskur starfseminnar. Þá er stóra spurningin sú, eru til einhverjir golfvellir sem eiga raunhæfa möguleika á að vera kolefnishlutlausir án þess að þurfa að borga fyrir jöfnunareiningar annars staðar?“ spyr hann og heldur áfram: „Eru til golfvellir sem ýmist binda nægilega mikið kolefni á sínum svæðum eða hafa möguleika á að stöðva losun með endurheimt votlendis sem nemur losuninni frá starfsemi þeirra?“
Edwin segir að með skýrslunni sem verður kynnt á ársþingi GSÍ vill fyrirtækið setja niðurstöður verkefnisins í þetta samhengi. Spurður segir hann jafnframt að forsvarsmenn íslenskra golfvalla séu ekki byrjaðir að kaupa kolefniseiningar.
Edwin hefur á löngum ferli sínum hannað frá grunni Brautarholtsvöll, Haukadalsvöll við Geysi og Sigló Golf á Siglufirði. Einnig hannaði hann fyrsta alvöru golfvöll Færeyja í höfuðborginni Þórshöfn. Sá fer í útboð í haust og hefjast framkvæmdir við fyrsta áfangann líklega á næsta ári. „Við gerum okkur vonir um að völlurinn þar verði fyrsti golfvöllurinn í heiminum þar sem losun gróðurhúsalofttegunda við gerð hans er mæld frá upphafi til enda,“ útskýrir Edwin.
Á meðal annarra verkefna hans í gegnum tíðina eru stækkanir og breytingar á ýmsum golfvöllum, þar á meðal Hlíðarvelli í Mosfellsbæ og Jaðarsvelli á Akureyri. Vinna vegna stækkunar á Svarfhólsvelli á Selfossi er sömuleiðis í fullum gangi.