Mygla hefur greinst á Keflavíkurflugvelli

Mygla hefur greinst í skrifstofurými á þriðju hæð flugvallarins.
Mygla hefur greinst í skrifstofurými á þriðju hæð flugvallarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mygla hefur greinst í skrifstofurými Isavia á þriðju hæð flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Mælingar hafa verið reglulegar og leitar Isavia nú að öðrum húsnæðiskostum fyrir starfsfólk. Myglan er aðeins bundin við ákveðna staði á skrifstofurýminu á þriðju hæðinni og nær ekki til farþegasvæðisins. Þetta staðfestir Brynjar Már Brynjólfsson, mannauðstjóri Isavia, í samtali við mbl.is.

Loftgæðamælingar hafa staðið yfir síðan í september á síðasta ári en það er ekki fyrr en í lok apríl 2023 sem að Isavia fær vísbendingar um að rakaskemmdin sé meiri en fyrstu mælingar bentu til. Þó er umfangið ekki alveg ljóst og starfsmenn hvattir til að láta vita ef þau finna fyrir óþægindum. Starfsmenn með aðsetur á þessum skrifstofum er frjálst að vinna á öðrum stöðum. 

Geta unnið heima hjá sér 

„Við tökum þessu mjög alvarlega og höfum farið í ítarlegar mælingar. Sú vinna stendur enn yfir og við erum að kortleggja umfangið. Í millitíðinni þá höfum við hvatt starfsfólk sem finnur fyrir einkennum eða finnst heilsu sinni ógnað að nýta sér aðrar starfsstöðvar eða vinna heima hjá sér,“ segir Brynjar og bætir við að Isavia hafa borist mjög fáar kvartanir frá starfsmönnum vegna óþæginda.

Fáir starfsmenn hafa ákveðið að vinna í öðru starfsrými og enginn hefur orðið fyrir alvarlegum veikindum. Hann segir Isavia hafa reynslu af mygluðu húsnæði frá því að starfsemi var í turninum á Reykjavíkurflugvelli.

„Við lentum þar í því að starfsmenn urðu fyrir alvarlegum veikindum og við vitum hvernig þetta getur haft áhrif á heilsu fólks. Þess vegna tökum við þessu mjög alvarlega og erum að stíga mjög hratt og fast til jarðar í þessu máli.“

Heilsa og öryggi starfsmanni aðalatriðið

Brynjar segir Isavia skoða aðra húsakosti um þessar mundir en það sé ekki hlaupið að því að finna laust húsnæði. Markmiðið sé að flytja hluta af starfseminni af þriðju hæðinni fyrir áramót til að tryggja að sem fyrst verði hægt að fara í viðgerðir og endurbætur.

„Heilsa og öryggi starfsfólks er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur. Það er stærsta málið,“ segir Brynjar að lokum.

mbl.is