Óskarsverðlaunaleikkona sýndi einstaka danstakta

Leikkonan Cate Blanchett gerði allt vitlaust þegar hún steig á …
Leikkonan Cate Blanchett gerði allt vitlaust þegar hún steig á svið ásamt hljómsveitinni Sparks. Samsett mynd

Óskarsverðlaunaleikkonan Cate Blanchett kom tónleikagestum Glastonbury-hátíðarinnar skemmtilega á óvart á dögunum þegar hún steig á svið ásamt bandarísku hljómsveitinni Sparks.

Blanchett dansaði við lagið The Girl Is Crying In Her Latte, en leikkonan á einmitt stórleik í tónlistarmyndbandinu við lagið.

Bræðurnir Ron og Russell Mael sem skipa hljómsveitina Sparks voru á meðal þeirra sem komu fram á tónlistarhátíðinni og var þetta í fyrsta sinn sem hinir gamalreyndu popparar stigu þar á svið.

Þegar kom að því að flytja lagið The Girl Is Crying In Her Latte sögðu bræðurnir: „Við gerðum myndband við þetta næsta lag og okkur hlaust sá heiður að fá stórleikarann Cate Blanchett til liðs við okkur. Hvar ertu Cate Blanchett?”

Hin 54 ára gamla ástralska leikkona vakti mikla lukku þegar hún steig á svið í sömu múnderingu og hún klæðist í tónlistarmyndbandinu. Hún byrjaði að dansa og hreyfði líkamann í takt við tónlistina við mikinn fögnuð tónleikagesta.



mbl.is