Segir gagnrýni á „Bon Aqua“ skiljanlega

Anna Regína Björnsdóttir, nýr forstjóri Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi …
Anna Regína Björnsdóttir, nýr forstjóri Coca-Cola Europacific Partners á Íslandi (Coca-Cola á Íslandi). Ljósmynd/Aðsend

Talsmaður Coca Cola European Partners á Íslandi segir gagnrýni á nafnabreytingu á Toppi í Bon Aqua vera skiljanlega. Starfsfólk fyrirtækisins á Íslandi taki undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að standa vörð um íslenska tungu. Útibúið hérlendis sé hins vegar háð stefnu og ákvörðunum erlendra eigenda fyrirtækisins.

Þá segir Anna Regína Björnsdóttir, forstjóri fyrirtækisins, að þegar hún hafi talað um að nafnabreytingin væri spennandi að þar með ætti hún við þá vinnu sem snýr að markaðssetningu Bon Aqua. 

Falla undir mörg markaðssvæði 

Anna Regína segir að ein af stefnum móðurfélagsins, The Coca-Cola Company, sé að vörumerkjasafn fyrirtækisins byggist á vörumerkjum sem hægt er að selja á mörgum markaðssvæðum og því er fyrirtækið að skipta út vörumerkjum sem ekki falla undir þá skilgreiningu.

Eiríkur Rögnvaldsson, pró­fess­or í ís­lenskri mál­fræði og mál­fars­leg­ur aðgerðarsinni, gerði athugasemd við það orðalag Önnu Regínu sem sagði í tilkynningu að nafnabreytingin úr Toppi í Bon Aqua væri spennandi. Eiríki fannst hins vegar miður að verið væri að kasta íslensku nafni á sódavatnsdrykknum fyrir róða. 

Deila áhyggjum af tungumálinu 

„Þessi gagnrýni er vel skiljanleg og deilum við áhyggjum af tungumálinu okkar, íslenskunni, og þróuninni sem víða á sér stað. Við, starfsfólk Coca-Cola Europacific Partnes á Íslandi, tökum undir sjónarmið varðandi það að standa vörð um íslenska tungu,“ segir Anna og bætir því við að það sé keppikefli fyrirtækisins að koma auglýsingum og skilaboðum á framfæri á íslensku. Allt sé íslenskað sem hægt er. 

Nafni Topps var breytt í Bon Aqua.
Nafni Topps var breytt í Bon Aqua.

„Varðandi vörumerkið sjálft þá er sú ákvörðun um að breyta nafninu á vörunni flókin og hluti af stærri mynd hvað varðar markaðsstarf, vöruþróun og aðra þætti í alþjóðlegu samhengi og varð þessi breyting að lokum lendingin,“ segir Anna. 

Átti við nýjungar í markaðsstarfi 

Spurð hvað sé spennandi við nafnabreytinguna þá segir Anna Regína að hún hafi átt samtal við Eirík þar sem hún útskýrði málið. 

„Að sjálfsögðu er það smekksatriði og persónubundið hvað fólki finnst spennandi en þetta orðalag okkar vísar í spennandi nýjungar og markaðsstarf  þegar fram líða stundir,“ segir Anna. 

Kemur krafan um nafnabreytingu frá erlendum eiganda? 

„Það með hvað vörumerkjaheiti er notað á vörum er háð stefnu eiganda vörumerkisins og ekki okkar ákvörðun einhliða hér á landi sem vinnum við að markaðssetja, selja, framleiða og dreifa þessum vörumerkjum,“ segir í skriflegu svari frá Önnu.   

mbl.is

Bloggað um fréttina