Barnabókaútgáfa hér á landi er í blóma og úrval barna- og ungmennabóka hefur farið ört vaxandi með hverju árinu. Fjölbreytt framboð af skemmtilegum og vönduðum barnabókum, íslenskum og þýddum og fyrir alla aldurshópa, er að finna í öllum helstu bókabúðum og bókasöfnum á landinu.
Það er því upplagt að nýta sumarið og grípa í góða bók og kynna börnin fyrir spennandi heimum uppfullum af litskrúðugum, sniðugum og frábærum persónum.
Fjölskylduvefurinn tók saman nokkrar skemmtilegar barnabækur sem er tilvalið að taka með í ferðalagið.
Bókin Teljum dýr – 1, 2 og 3 eftir Halldór Á. Elvarsson, er skemmtilegt og fallega myndskreytt talnakver fyrir yngstu lesendurna. Bókin inniheldur myndir af dýrum í íslenskri náttúru sem auðveldar börnum að læra tölustafina.
Stórsniðug bók eftir Sophie Schoenwald og Gunther Jakobs, sem á eftir að láta lesendur flissa. Textinn er stuttur og dregur fram allt það spaugilega við að bursta tennurnar.
Töfrandi saga eftir Jessicu Love um vináttu og ævintýri. Júlían í brúðkaupinu er önnur bók Love á íslensku, en sú fyrri, Júlían er hafmeyja, hlaut einróma lof gagnrýnenda og lesenda.
Guðný Anna Annasdóttir skrifaði þessa skemmtilegu sögu sem er í flokknum leikur að lesa. Sagan gerist í Arnarfirði, en Lindís og Steindís halda í skoðunarleiðangur í Arnarfjörð til þess að kanna breytingar á lífríki sjávar.
Bækur Ævars Þórs Benediktssonar þar sem lesandinn ræður för hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum. Veiðiferðin fjallar um hugrakkan þrumuguð, hrikalega hræddan jötun, glorhungraðan orm og þig, og því ómögulegt að segja hvað gerist – þú stjórnar ferðinni!
Spennandi saga eftir Hjalta Halldórsson sem mun án efa halda lesandanum á tánum. Dísa, Drengur og amma upplifa óvænt ævintýri í Mývatnssveit.
Alice Oseman skrifaði þessa yndislegu og einlægu myndasögu fyrir börn og unglinga, sem hefur farið sigurför um heiminn. Charlie fellur fyrir Nick, en þeir eru skólafélagar. Nick hefur engan áhuga á strákum. Þeir verða góðir vinir og þurfa að horfast í augu við tilfinningar sínar. Erla E. Völudóttir þýddi söguna.
Bækur Gunnars Helgasonar hafa heldur betur slegið í gegn hjá ungum íslenskum lesendum, en bækurnar um Stellu og litríka fjölskyldu hennar eru margverðlaunaðar. Sjöunda bókin í þessum stórskemmtilega bókaflokki fjallar um Bellu gellu og mótorkrossæðið. Aðdáendur fjölskyldunnar geta því lesið um uppátæki Bellu gellu og hlegið í sumarblíðunni.