Skemmtilegar barnabækur í sumarfríið!

Lestur er bestur!
Lestur er bestur! Samsett mynd

Barnabókaútgáfa hér á landi er í blóma og úrval barna- og ungmennabóka hefur farið ört vaxandi með hverju árinu. Fjölbreytt framboð af skemmtilegum og vönduðum barnabókum, íslenskum og þýddum og fyrir alla aldurshópa, er að finna í öllum helstu bókabúðum og bókasöfnum á landinu.

Það er því upplagt að nýta sumarið og grípa í góða bók og kynna börnin fyrir spennandi heimum uppfullum af litskrúðugum, sniðugum og frábærum persónum. 

Fjölskylduvefurinn tók saman nokkrar skemmtilegar barnabækur sem er tilvalið að taka með í ferðalagið. 

Teljum dýr – 1, 2 og 3

Bókin Teljum dýr – 1, 2 og 3 eftir Halldór Á. Elvarsson, er skemmtilegt og fallega myndskreytt talnakver fyrir yngstu lesendurna. Bókin inniheldur myndir af dýrum í íslenskri náttúru sem auðveldar börnum að læra tölustafina. 

Skjáskot/Salka

Tannburstunardagurinn mikli

Stórsniðug bók eftir Sophie Schoenwald og Gunther Jakobs, sem á eftir að láta lesendur flissa. Textinn er stuttur og dregur fram allt það spaugilega við að bursta tennurnar.

Skjáskot/Forlagið

Júlían í brúðkaupinu

Töfrandi saga eftir Jessicu Love um vináttu og ævintýri. Júlían í brúðkaupinu er önnur bók Love á íslensku, en sú fyrri, Júlían er hafmeyja, hlaut einróma lof gagnrýnenda og lesenda.

Skjáskot/Forlagið

Lindís og kafbátaferðin

Guðný Anna Annasdóttir skrifaði þessa skemmtilegu sögu sem er í flokknum leikur að lesa. Sagan gerist í Arnarfirði, en Lindís og Steindís halda í skoðunarleiðangur í Arnarfjörð til þess að kanna breytingar á lífríki sjávar. 

Skjáskot/Bókatíðindi

Þín eigin saga: Veiðiferðin

Bækur Ævars Þórs Benediktssonar þar sem lesandinn ræður för hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum. Veiðiferðin fjallar um hugrakkan þrumuguð, hrikalega hræddan jötun, glorhungraðan orm og þig, og því ómögulegt að segja hvað gerist – þú stjórnar ferðinni!

Skjáskot/Bókatíðindi

Gestur úr geimnum

Spennandi saga eftir Hjalta Halldórsson sem mun án efa halda lesandanum á tánum. Dísa, Drengur og amma upplifa óvænt ævintýri í Mývatnssveit. 

Skjáskot/Forlagið

Hjartastopp

Alice Oseman skrifaði þessa yndislegu og einlægu myndasögu fyrir börn og unglinga, sem hefur farið sigurför um heiminn. Charlie fellur fyrir Nick, en þeir eru skólafélagar. Nick hefur engan áhuga á strákum. Þeir verða góðir vinir og þurfa að horfast í augu við tilfinningar sínar. Erla E. Völudóttir þýddi söguna. 

Skjáskot/Forlagið

Bella gella krossari 

Bækur Gunnars Helgasonar hafa heldur betur slegið í gegn hjá ungum íslenskum lesendum, en bækurnar um Stellu og litríka fjölskyldu hennar eru margverðlaunaðar. Sjöunda bókin í þessum stórskemmtilega bókaflokki fjallar um Bellu gellu og mótorkrossæðið. Aðdáendur fjölskyldunnar geta því lesið um uppátæki Bellu gellu og hlegið í sumarblíðunni.

Skjáskot/Bókatíðindi
mbl.is