Tæpur helmingur þjóðarinnar er mjög eða frekar ánægður með ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra að stöðva veiðar á langreyðum tímabundið. Þetta kemur fram í könnun Prósent.
Rúmur fjórðungur svarenda segist mjög óánægður með ákvörðunina en þriðjungur mjög ánægður. Er þá marktækur munur á afstöðu eftir kyni, en konur eru ánægðari með ákvörðunina en karlar. 16% allra svarenda eru hvorki ánægðir né óánægðir.
Svarendur 55 ára og eldri eru marktækt óánægðari með ákvörðunina en þeir sem yngri eru og er mesta ánægjan með ákvörðunina hjá yngsta aldurshópi könnunarinnar, einstaklingum á aldrinum 18 - 24 ára. Í þeim aldurshópi er að vísu einnig hæst hlutfall hlutlausra svarenda, 33%.
Áberandi munur er á afstöðu eftir fylgi flokka. Mest er óánægjan hjá þeim sem myndu kjósa Miðflokkinn og eru þeir marktækt óánægðari með ákvörðunina en fylgjendur annarra flokka.
Hlutfall hlutlausra er það sama meðal kjósenda Miðflokksins og Pírata, aðeins 5%, en að öðru leyti er afstaða fylgjenda þessara tveggja flokka gjörólík. Flestir fylgjenda Pírata eru ánægðir með ákvörðun ráðherra og er merkjanlegur munur á afstöðu þeirra og annarra flokka.
Hlutfall svarenda sem hvorki eru ánægðir né óánægðir með ákvörðunina er hæst meðal fylgjenda Vinstri grænna, 35%, og er það talsvert hærra en meðal kjósenda annarra flokka.
Alls 1.147 Íslendingar svöruðu könnuninni sem framkvæmd var dagana 22. - 29. júní.